Ketóvæna blómkálsgratínið sem passar með öllu

Hér erum við með æðislegan rétt sem passar bæði sem aðalréttur og meðlæti. Blómkál nýtur einmitt mikilla vinsælda þessi dægrin (eins og reyndar alltaf) og ekki spillir fyrir að rétturinn er ketóvænn.

Ketóvæna blómkálsgratínið sem passar með öllu

  • 1,5-2 blómkálshöfuð (eftir stærð)
  • 2 pakkar TORO bernaise-sósa
  • 4 dl rjómi
  • 1 pakki skinka
  • 2 púrrulaukar
  • 100 g smjör
  • Rifinn ostur


Sjóðið (eða gufusjóðið) blómkálið í söltuðu vatni í stutta stund, þar til það verður aðeins mjúkt. Skerið hvorn púrrulauk í um það bil 4 langa bita og rúllið bitunum upp í skinkusneiðarnar. Skiptið blómkálinu niður og raðið í eldfast form ásamt skinkunni og púrrulauknum og kryddið með Bezt á flest eða salti og pipar. Bræðið smjörið í potti og hrærið innihaldi TORO bernaise-sósunnar í smjörið. Hellið síðan rjómanum út í og hrærið vel saman. Leyfið suðunni að koma upp við vægan hita. Hellið síðan sósunni yfir blómkálið og skinkuna í eldfasta mótinu og stráið ostinum yfir. Bakið í ca. 20 mínútur í miðjum ofni við 180°C eða þar til osturinn verður gullinbrúnn. 

Berið fram með ristuðu brauði eða njótið eins og sér (ketó). 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert