Skyndibitastaður og litlar verslanir í hverfi í Seoul í Suður-Kóreu þar sem hluti Óskarsverðlaunamyndarinnar Parasite var tekinn upp njóta nú góðs af velgengni myndarinnar. Sala á litlum pizzastað hefur tvöfaldast á síðustu vikum.
Parasite fjallar um fátæka fjölskyldu frá Suður-Kóreu sem nær að lauma sér lúmskt inn í fjölskyldu- og heimilislíf auðugrar fjölskyldu. Myndin vann fern Óskarverðlaun og varð sú fyrsta með öðru tungumáli en ensku sem var kjörin besta myndin síðan Óskarinn var fyrst afhentur árið 1929.
„Fjöldi útlendinga koma hingað, meira að segja seint á kvöldin. Í gær bilaði pizzaofninn sökum álags,“ segir Eom Hang-ki, eigandi Sky Pizza sem bregður fyrir í Parasite. Sem betur fer tókst að laga ofninn og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr.
En ekki eru allir á eitt sáttir með athyglina sem hverfið hefur fengið. Kim Kyung-soon, eigandi stórmarkaðar í hverfinu segir íbúa uggandi þar sem þeir óttast að lítið sem ekkert verði gert varðandi uppbyggingu í hverfinu og því breytt í suðupott fyrir ferðamenn.