„Þetta er bara algjörlega æðislegt“

Það kom Gunnari skemmtilega á óvart hve skamman tíma tók …
Það kom Gunnari skemmtilega á óvart hve skamman tíma tók að endurheimta stjörnuna. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Þetta er bara algjörlega æðislegt. Ég er ótrúlega stoltur og ánægður að hafa náð þessu aftur,“ segir Gunnar Karl Gíslason, matreiðslumeistari og eigandi veitingastaðarins Dill, sem hefur nú endurheimt Michelin-stjörnuna sem hann missti fyrir ári. Þegar blaðamaður náði tali af Gunnari var hann einmitt að leggja á í myndsamtali sem hann átti við allt starfsfólkið sitt og segir mikið fjör hafa verið þar í gangi.

„Ég get ekki beðið eftir framtíðinni og að sjá hvað gerist,“ segir Gunnar sem flutti heim frá New York á síðasta ári, þar sem hann bjó um tíma, meðal annars til að endurheimta stjörnuna góðu. Hann greindi frá þeim áformum í viðtali við Sunnudagsmoggann. „Það var kannski stærsti parturinn að koma heim og passa upp á staðinn minn, sem ég opnaði með Óla mínum fyrir ellefu árum síðan. Þetta er algjörlega yndislegt.“

Gunnar segist ekki hafa átt von á því að fá stjörnuna aftur svo fljótt því í raun hefur veitingastaðurinn bara verið opinn í þrjá mánuði á nýjum stað með breyttum áherslum. Tíðindin komu því ansi skemmtilega á óvart.

Hann segir eflaust ekkert eitt hafa gert gæfumuninn í því hvað tók skamman tíma að endurheimta stjörnuna og hógværðin uppmáluð segir hann það líklega hafa minnst með hann sjálfan að gera. „Að hafa búið til svona ótrúlega flott lið sem er að vinna með mér á Dill er alveg magnað á svona stuttum tíma. þau eiga svo mikið hrós að ég get ekki hætt að tala um það. En svo breyttum við öllum matseðlinum og byrjuðum upp á nýtt, það var ótrúlega næs. Við breyttum aðeins um concept og ég er ótrúlega ánægður með hvað við höfum gert.“

Gunnar er spenntur fyrir komandi tímum á Dill og segir þau ætla að halda áfram á sömu braut. „Eins og maðurinn sagði, lengi getur gott batnað. Nú er það okkar draumur að halda áfram okkar vegferð og reyna að vera betri með hverjum deginum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka