Svona gerir þú alvörusmurbrauð að hætti Kastrup

Ásdís Ásgeirsdóttir

Alvöru danskt smurbrauð er eitt það ljúffengasta sem hægt er að gæða sér á. Hér fáum við uppskriftir beint úr smiðju meistaranna á Kastrup.

Rauðsprettan góða

Fyrir 2

  • 2 lítil rauðsprettuflök
  • 2 brauðsneiðar gróft brauð
  • hveiti, í skál
  • þeytt egg
  • panko-rasp, í skál
  • smá rjómi
  • olía og smjör
  • rækjur, til að setja ofan á
  • dill, til skreytingar

Hreinsið rauðsprettuflökin og veltið upp úr hveiti, þeyttu eggi með smá rjóma út í og því næst sett í panko-rasp. (Panko-raspur er japanskur brauðraspur sem fæst í flestum stórmörkuðum). Því næst eru flökin djúpsteikt í olíu eða steikt á pönnu í olíu og smjöri.

Heimatilbúið remúlaði

  • 6-8 gulrætur flysjaðar
  • 1 blómkálshaus lítill
  • 1 krukka cornichon (litlar súrar gúrkur)
  • 1 krukka capers
  • túrmerik
  • dijon-sinnep

Sultulögur

  • 4 dl edik
  • 2 dl vatn
  • 200 g sykur
  • blandað krydd, t.d. piparkorn, sinnepsfræ, lárviðarlauf o.s.frv.

Blómkál og gulrætur er sýrt í sultulegi og svo hakkað smátt ásamt gúrkum og capers.

Þessu er svo blandað saman við majónes ásamt túrmeriki fyrir gula litinn og smá dijon.

Ásdís Ásgeirsdóttir

Kastrup-rækjubrauð

Fyrir 2

  • 2 brauðsneiðar
  • 100 g rækjur
  • soðin egg
  • heimagert majónes

Nota skal gott gróft brauð, eða rúgbrauð, og eðalrækjur. Hægt er að skreyta að vild með ferskum kryddjurtum.

Á Kastrup er majónesið búið til frá grunni.

Heimalagað majónes

  • 1 dl eggjarauður
  • 25 ml lager edik eða annað gott edik
  • 1 tsk. ca. Dijon-sinnep
  • 1 l hlutlaus olía, t.d. repjuolía,
  • salt

Blandið öllu saman í matvinnsluvél eða hrærivél, nema olíunni. Þeytið mjög vel. Hellið svo olíunni í þunnri bunu út í á meðan hrært er og úr verður majónes. Gott er að bragðbæta það eftir á með ediki, salti og sinnepi ef þarf. Þetta er nokkuð stór uppskrift og geymist vel í kæli, en má gjarnan helminga.

Ásdís Ásgeirsdóttir

 

Roast beef

Fyrir 2

  • 2 grófar brauðsneiðar
  • 100 g roast beef
  • heimalagað remúlaði (sjá uppskrift hér á síðu)
  • steiktur laukur
  • súrar gúrkur

Steiktur laukur

  • 1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • smá mjólk
  • hveiti í skál
  • olía til djúpsteikingar

Sneiðið laukinn í þunnar sneiðar og setjið í mjólk. Veltið svo upp úr hveiti og djúpsteikið rétt áður en brauðið er borið fram.

Fyrir sultaðar agúrkur er hægt að notast við sultulöginn sem gefinn var upp hér á síðunni. Sneidd agúrka er þá sett í kaldan löginn og geymd þar í að minnsta kosti viku áður en notaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert