Ef það er einhvern tímann tilefni til að tríta sig almennilega er það núna. Hér erum við að tala um alvöru rib-eye-steik og hvorki meira né minna en trufflu-bernaise-sósu sem ætti að valda yfirliði hjá einhverjum.
Fyrir þá sem eru ekki alveg með á hreinu hvað trufflu-bernaise er þá erum við að tala um ígildi þess að tvær poppstjörnur eignist barn. Það er nánast gulltryggt að afkvæmi þeirra verður stórbrotið — rétt eins og þegar trufflan hitti bernaise-sósuna og ákvað að bjóða í partý.
Það er meistari Linda Ben sem á heiðurinn að þessari uppskrift og fyrir þá sem vilja sjá aðferðina er hún inn í highlights undir „steik og franskar“ inn á Instagraminu hennar.
Steik og franskar með trufflu-bernaise-sósu
- 2 x 250 g Danish Crown Rib-eye-steikur
- Cavendish franskar Restaurant style
- Salt og pipar
- Trufflu-bernaise-sósa
Trufflu-bernaise-sósa
- 4 eggjarauður
- 400 g brætt smjör
- 2-3 tsk. bearnaise-essens (magn eftir smekk)
- ½ tsk. truffle olía (fæst í flestum betri stórmörkuðum)
- u.þ.b. 2 tsk. estragon (magn eftir smekk)
- Pipar (magn eftir smekk)
- Salt með trufflum (til dæmis Lie Gourmet sem fæst hér)
Aðferð
- Brjótið eggin og aðskiljið eggjahvítu og eggjarauður.
- Bræðið smjörið á vægum hita.
- Þeytið eggjarauðurnar varlega í nokkra stund í hrærivél/rafmagnsþeytara þar til þær eru orðnar léttar, ljósar og mynda borða. (takið þeytarann upp reglulega og teiknið 8 snögglega með því sem lekur af þeytaranum ofan í skálinni. Ef það tekst að teikna áttu og hún sést greinilega í örfáar sek. eru eggjarauðurnar tilbúnar).
- Hellið smjörinu út í eggjarauðurnar í lítilli bunu með þeytarann rólega í gangi.
- Setjið bearnaise-essens út í sósuna og hrærið saman, bætið því næst estragon út í og hrærið saman.
- Bætið truffluolíu út í og hrærið saman.
- Saltið og piprið sósuna eftir smekk. Gott að byrja á litlum skammti og auka svo eftir smekk.
Steikur
- Takið steikurnar út úr kæli a.m.k. 2 klst. fyrir eldun.
- Kveikið á grillinu og leyfið því að hitna vel.
- Kveikið á ofninum, stillið á 230°C og undir+yfir hita.
- Piprið steikurnar vel á báðum hliðum, magn eftir smekk.
- Því næst er sósan útbúin (uppskrift hér fyrir neðan)
- Grillið hverja steik á báðum hliðum, þar til kjarnhiti nær 57ºC (tími fer eftir hita á grillinu en þumalputtareglan er 4-6 mín. á hvorri hlið í heildina). Mikilvægt er að fylgjast vel með kjötinu, snúa reglulega, passa að sjálfsögðu að það brenni ekki. Eftir að steikurnar koma af grillinu, leyfið þeim að standa í 10 mín. við stofuhita, gott að setja álpappír yfir til að halda þeim heitum.
- Setjið frönskurnar inn í ofn og bakið í 10 mín. eða þar til þær eru orðnar fallega gullin brúnar, stökkar að utan en mjúkar að innan.
- Saltið steikurnar og frönskurnar eftir smekk og berið fram með bernaise-sósunni.
Nákvæmt aðferðarmyndband er að finna á Instagram.com/lindaben í „steik og franskar” highlights.
- - -
Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...
Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl.