Grillað rib-eye að hætti Jóa Fel

Uppáhalds grilluppskrift Jóa Fel er rib-eye með béarnaise og tilheryandi …
Uppáhalds grilluppskrift Jóa Fel er rib-eye með béarnaise og tilheryandi meðlæti. mbl.is/Jóhannes Felixson

Það er fátt sem Jóhannes Felixson getur ekki gert í eldhúsinu. Bakarameistari landsins er ekki einungis fær í snúðum og brauði, því hann grillar steikur eins og ekkert sé sjálfsagðara – og það engar smá steikur!

Við fengum Jóa til að deila með okkur uppáhalds uppskriftinni sinni og spurðum hann nokkra laufléttra spurninga í leiðinni. Jói heldur úti girnilegri Instagram síðu HÉR, sem við mælum með að kíkja á ef þú ert með jafn mikla matarást og við hér á vefnum.

Hver er þín allra besti máltíð?
Það eru margar máltíðir sem standa upp úr sem sú besta, en ég enda alltaf á að nefna hreindýr. Ætli það sé ekki allra besta máltíð sem ég fæ.

Hver er þín allra versta máltíð?
Það er einfalt að nefna slæma máltíð. Þó svo að ég sé ættaður að Vestan, þá er súrmatur það alversta sem ég hef borðað. Ég þurfti eitt sinn að borða súrmat og ég held að ég geri það ekki aftur.

Gullna reglan í matargerð?
Í langflestum tilvikum þegar ég geri sósur, þá nota ég rjóma og gott vín í grunninn. Stundum langar mig að gera alvöru soðsósur en á svo erfitt með það – aðallega því ég vil gera þær frá grunni en það tekur svo óralangan tíma. Annars er gullna reglan sú – mikið af rjóma og smjöri, þá getur þetta ekki klikkað.

Hvað munt þú aldrei setja inn fyrir þínar varir?
Til að skemma allan mat þarf bara að setja grænar ORA baunir á borðið. Mér þykir þær hrikalega vondar og ég mun, að ég held, aldrei setja þær ofan í mig.

Í hverju liggja stærstu matartrendin í augnablikinu?
Mér finnst alveg æðislegt hvað margir eru farnir að velja íslenskt. Alltaf fleiri sem eru meðvitaðir um hversu miklu máli þetta skiptir fyrir alla, ekki bara þá sem framleiða vöruna. Þetta á líka við um veitingastaði, bakarí og annarskonar rekstur með íslenska framleiðslu.

Ef þú mættir bara borða einn rétt restina af lífinu – hvaða réttur myndi það vera?
Ég er svo einfaldur og ekta karlmaður – ef ég á að nefna eitthvað eitt, þá væri það grillað nauta rib-eye með béarnaise. Ég vona að það verði mín síðasta máltíð ef ég get valið um það. Það eru margir komnir á bragðið með að elda feita nautasteik, enda var auðvelt að gefa ykkur eina góða uppskrift af bestu grill steikinni.

Grillað rib-eye að hætti Jóa Fel

  • 1 góð feit rib-eye steik - reynið að velja sem stærstu og feitustu steikina.
  • Salt og pipar
  • Hvítlaukur
  • Rósmarín

Béarnaise

  • 300 g smjör
  • 3 eggjarauður
  • 1 tsk béarnaise edik
  • 1 tsk nauta kjötkraftur
  • 1 tsk estragon
  • Salt og pipar

Annað

  • Grillkartöflur
  • Portobello sveppir
  • Salat að eigin vali

Aðferð:

  1. Setjið kjötið í fat og kryddið með salti, pipar, hvítlauk og rósmarín. Hellið nóg af olíu yfir.
  2. Látið kjötið standa í marineringunni við stofuhita í sirka 3 tíma.
  3. Grillið við mjög háan hita og brúnið vel til að loka kjötinu.
  4. Hægeldið svo kjötið þar til það nær 56°-58°gráðum í kjarnhita.
  5. Látið standa í 5 mínútur áður en borið er fram.
  6. Béarnaise: Eggjarauður eru þeyttar með kryddi, og bræddu smjöri er hellt rólega saman við.
  7. Kartöflur: Skerið kartöflurnar til helminga og leggið á grillið með sléttu hliðina niður á við. Þegar kartaflan er orðin brún, þá snýrðu þeim á hliðina og hægeldar. Gott er að salt og setja jafnvel smá trufflu smjör.
Það er alls ekkert að þessu!
Það er alls ekkert að þessu! mbl.is/Jóhannes Felixson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert