Hyggst gera ís úr sauðamjólk

Ann-Marie Schlutz mjólkar kindurnar með sérstakri færanlegri mjaltavél sem hún …
Ann-Marie Schlutz mjólkar kindurnar með sérstakri færanlegri mjaltavél sem hún keypti erlendis. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtæki sem er að undirbúa framleiðslu á ís úr sauðamjólk fékk hæsta styrkinn úr Samfélagssjóði Fljótsdals, við fyrstu úthlutun. Mikil ásókn var í styrki og gat stjórn sjóðsins aðeins orðið við hluta þeirra.

Tilkynnt var í gær um styrki til 22 verkefna í ár, samtals að fjárhæð 12,9 milljónir kr. Sauðagull, einkahlutafélag Ann-Marie Schlutz á bænum Egilsstöðum í Fljótsdalshreppi, hefur verið að gera tilraunir með að framleiða afurðir úr mjólk úr kindum. Á síðasta ári hóf hún sölu á fyrstu framleiðslu sinni, fetaosti sem nefndur er Kubbur. Einnig konfekti sem gert er úr sauðamjólk og mysu.

„Við settum vörurnar á markað hér á Austurlandi og þær slógu í gegn. Ég fékk líka nokkrar fyrirspurnir úr Reykjavík. Ég geri mér vonir um að þetta gangi vel,“ segir Ann-Marie. Hún tekur fram að ákveðið hafi verið að byrja smátt enda sé hún í annarri vinnu. Hún bindur vonir við að geta aukið framleiðsluna smám saman og að hún geti lifað af henni og jafnvel ráðið fólk í vinnu.

Sauðaostur er þekktasta afurðin úr sauðamjólk í Evrópu en mjólkin er einnig talin góð í sælgæti og er vaxandi í ísgerð. „Ég hef lesið um mjólkina og smakkað ís og sælgæti og fór á námskeið í ísgerð í Þýskalandi. Mér finnst þetta áhugaverð framleiðsla sem mig langar að fara með lengra og veit að hún getur slegið í gegn,“ segir Ann-Marie um ísinn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert