Þegar stjórnvöld og yfirvöld úti um allan heim sendu fólk í samkomubann til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar kolféll salan hjá gosframleiðandanum Coca-Cola eftir að barir og veitingahús lokuðu.
Þessi aðgerð setti sinn svip á ársfjórðungsuppgjör fyrirtækisins. Hafa tekjur fyrirtækisins dregist saman um 28% miðað við sama tíma í fyrra en það samsvarar um 40 milljörðum íslenskra króna sem ekki hafa skilað sér í kassann.
Fyrir utan vörumerkið Coca-Cola framleiðir fyrirtækið fjölda annarra þekktra drykkja eins og Sprite, Fanta, Fuze Tea, Schweppes og orkudrykkinn Powerade. Og þar fyrir utan á vörumerkið kaffikeðjuna Costa Coffee. Fyrirtækið selur gríðarlegt magn bæði til einstaklinga í matvöruverslunum og einnig viðskiptavina á börum, veitingahúsum, hótelum og öðrum sambærilegum stöðum sem lokuðu starfsemi sinni þessa mánuðina.
Þrátt fyrir minnkandi tekjur er fyrirtækið þó alls ekkert í slæmum málum, þar sem það sér fram á að skila allt að 30 milljarða króna hagnaði, sem er um það bil þriðjungi minna en á sama tíma í fyrra.