Glímdi við átröskun þrátt fyrir að vera í yfirþyngd

Jessica Spencer.
Jessica Spencer.

Jessica Spencer greindist með átröskun þrátt fyrir að vera í yfirþyngd. Um er að ræða sjúkdóm sem margir glíma við, jafnvel án þess að vita af því.

Þegar Jessica var 21 árs gömul, hafði hún eytt árum saman í að skammast sín fyrir að vera í yfirþyngd. Hún forðaðist að borða þar til hana verkjaði í líkamann – og þegar hún borðaði, gerðist það svo hratt að hún varla mundi hvernig maturinn bragðaðist. Hjartsláttatruflanir tóku þá við sem stóðu yfir í allt að klukkustund. Eftir það tóku við sjálfsásakanir fyrir að hafa ekki meiri sjálfsstjórn. Á þeim tímapunkti var hún orðin verulega hrædd og leitaði sér loks hjálpar. Hún var í kjölfarið greind með átröskun.

Jessica var 14 ára gömul þegar hún ákvað að hún vildi verða kynnir í sjónvarpi. Hún trúði því að með því að léttast, þá yrði allt auðveldara og hún fengi eflaust starf í sjónvarpi. Hún las sér til um á netinu hvernig ætti að telja hitaeiningar og samviskusamlega skar hún niður í tvo mánuði þar til hún innbyrti einungis helminginn af því sem hún átti að gera. Hún fann fyrir miklu stolti þegar fólk tók eftir því að hún hafði lagt af og í fyrsta sinn í langan tíma fannst henni hún falleg.

Það var bara stórt vandamál. Í hvert sinn sem hún stóð upp svimaði hana. Höfuðverkur var daglegt brauð og henni sortnaði reglulega fyrir augum. Hún ákvað því að borða aðeins meira en missti þá talningarkerfið úr böndunum og varð stjórnlaus. Í kjölfarið tók við vítahringur þar sem skömmin og vanlíðanin var ríkjandi. Hún hætti að telja hitaeiningar af ótta við sjá hversu mikið hún hafði borðað.

Næstu árin var Jessica föst í víthring þar sem hún sveiflaðist á milli þess að borða of lítið og of mikið. Og hún var algjörlega stjórnlaus þegar kom að súkkulaði og reyndi að leita svara. Hún komst að því að hugtakið „binge-eating“ olli henni mikilli vanlíðan. Jessica hélt að hún þyrfti að læra sjálfstjórn og neyddi sjálfa sig til að skera niður.

Jessica hóf nám í fjölmiðlun en kvíðinn og þunglyndið var ekki langt undan sem setti strik í námið en á þessum tímapunkti var hún við það að missa geðheilsuna. 19 ára gömul fór hún í meðferð, þar sem það virtist vera eini kosturinn í stöðunni. Þar talaði hún um tilfinningar sínar varðandi það að vera of feit, en forðaðist umræðuna um matarvenjur og ást hennar á súkkulaði. Tímabilin þar sem hún borðaði of lítið voru styttri en þar sem hún át yfir sig. Og á þessum tíma, setti hún mikla pressu á sig sjálfa, þar sem henni fannst hún vera einskis virði á meðan hún var í yfirþyngd. Hugmyndin um að vera með átröskun hafði komið upp í huga hennar, án þess að hún samþykkti það. Jessica taldi að einungis grannir gætu verið með átröskun og hún passaði ekki inn í þá mynd.

Dag einn var hún stödd á hárgreiðslustofu þegar leið yfir hana. Eftir að hafa sagt heimilislækninum allt af létta var eins og hún næði loksins andanum – léttirinn var það mikill. Hún var sett á þunglyndislyf og var greind með OSFED eða Other Specified Feeding and Eating Disorder. Átröskun sem nær ekki yfir aðra sjúkdóma eins og anorexíu eða búlemíu. Í Bretlandi er um hálf milljón manns talin þjást af þessum sjúkdómi. Að svelta sig til að léttast eru einkenni anorexíu en að missa stjórn á matarneyslu er kallað „binge-eating disorder“.

Eftir þetta hefur Jessica fengið betri fræðslu um átraskanir og hætti í framhaldinu að taka þátt í umræðum á netinu sem brutu hana niður og ýttu undir þá hugmynd að hún yrði að grennast. Í dag telur hún ekki hitaeiningar og segir við sjálfa sig á hverjum degi að henni sé fullkomlega leyfilegt og eðlilegt að borða mat. Þannig losnaði hún undan hjartsláttarónotinni. Hún tók sér ársfrí frá námi og setti fullan fókus á sig sjálfa, en með því að að slaka á náminu um stund fékk hún aukinn tíma fyrir sjálfa sig og sinna áhugamálum. Þunglyndislyfin byrjuðu fljótlega að virka og smám saman léttist hún um nokkur kíló. Jessica segir að þegar þú ert grannur og missir kíló, þá verði fólk áhyggjufullt – en þegar þú ert í þéttari kantinum og léttist, þá sé þér ítrekað óskað til hamingju fyrir að hugsa svona vel um sjálfan þig.

Að þjást af átröskun er átakanleg reynsla og eflaust enn erfiðari þegar þú ert í ofþyngd. Skömmin sem Jessica fann fyrir og pressan á að vera grönn og glæsileg var stöðug.

Til að léttast á heilbrigðan hátt ætti alltaf að leita til sérfræðinga sé þess þörf. Leggja þarf áherslu á rétt næringarinnihald og gæta þess vel að líkaminn sé að fá þá næringu sem hann þarf. Saga Jessicu er ekki einsdæmi en hún deildi henni til að vekja athygli á sjúkdóminum sem hingað til hefur fengið litla sem enga athygli en er stórhættulegur þeim sem af honum þjást.

Að borða vel og hreyfa sig er lífsstíll sem hún tileinkar sér í dag, en fjögur ár eru síðan hún greindist með OSFED. Hún leitar stundum í súkkulaði til huggunar en fer aldrei út í ofát. Hún reynir að greina á milli hvort hún sé svöng út af stressi eða hvort líkaminn sé einfaldlega að kalla á mat. Ef um stress er að ræða, þá finnur hún aðrar leiðir til að slaka á en að opna ísskápinn. Og þrátt fyrir hvað vigtin segir, þá hefur hún tekið líkamann í sátt og gerir allt til að halda sér á lífi. Bati er ferðalag um að velja lífið, og á hverjum degi kýs Jessica batann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert