Hámerin í netum Bárðar að steikum á Langaholti

Það var Þorkell Símonarson, vert á Langholti, sem keypti hámerina. …
Það var Þorkell Símonarson, vert á Langholti, sem keypti hámerina. Hann segir hana þéttari en annan fisk og eldaða eins og kjöt. Ljósmynd/Langholt

Áhöfnin á netabátnum Bárði SH, sem rær frá Arnarstapa, fékk 120 kílóa hámeri í netin á dögunum. Þorkell Símonarson, vert á sveitahótelinu Langaholti, keypti hámerina og stefnir að því að koma henni á matseðilinn. Vekur það nokkra athygli þar sem um hákarlategund er að ræða.

Spurður hvernig best sé að aðhafast við eldamennskuna þegar hámeri er annars vegar segist Þorkell gera steikur úr hámerinni og steikja hana á pönnu með olíu og hvítlauk. Þá segir hann einnig að það sé tilvalið að grilla steikurnar. „Hámerin er bara elduð eins og kjöt, en er hinsvegar þéttari í sér en annar fiskur,“ útskýrir Þorkell og bætir við að hámerin sé eftirsótt um allan heim.

Vertinn á Langholti segir hámerina af slíkri stærð að steikurnar muni líklega endast í eitt ár.

Hámerin veiddist á dögunum af áhöfninni á Bárði
Hámerin veiddist á dögunum af áhöfninni á Bárði mbl.is/Alfons Finnsson

Hákarlategundin veiðist víða, meðal annars á Norður-Atlantshafi, Miðjarðarhafi og í sunnanverðu Indlandshafi. Norðmenn, Danir, Spánverjar, Frakkar og Japanir eru meðal þjóða sem hafa stundað hámeraveiðar og er talið að tegundin sé ofveidd á flestum þeim svæðum þar sem skipulagðar veiðar eru stundaðar.

Íslendingar hafa lítið veitt hámeri með skipulögðum hætti en tilraunir voru gerðar á Vestfjörðum á árunum 1959 til 1962. „Hámerin hreyfist lítið á matseðlinum (hér á landi) vegna þess að fólk þekkir lítið svona fisk en samt sem áður slær hámerin í gegn á fiskhlaðborðum,“ segir Þorkell.

Stærðar fiskur

Hámeri verður um 2,5 metrar að lengd og getur vegið allt að 135 kíló. Þá lifir hákarlinn frá yfirborði sjávar niður að 300 til 400 metra dýpi og segir á Vísindavefnum að vitað sé til þess að hámerin geti farið niður á allt að 1.300 metra dýpi.

Þá segir einnig að „hámeri er friðuð tegund hér við land en alltaf veiðist eitthvað sem meðafli. Sjómönnum er skylt að sleppa fiskum sem þeir telja að séu lífvænlegir aftur í sjó. Það kemur því ekki mikill afli að landi, árið 2017 var hann til dæmis rúmlega 700 kg og lönduðu einungis þrír bátar hámeri á því ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert