Mánudagsfiskurinn verður ekki betri en þessi uppskrift hér – grilluð bleikja með fennel- og appelsínusalati sem nær nýjum hæðum.
Uppskriftina fengum við lánaða úr „kokkabók“ Kalla K sem er innflutnings- og heildsölufyrirtæki hér á landi.
Bleikja með fennel- og appelsínusalati (fyrir 4)
Bleikja
- 2 flök af bleikju meðalstór, roðlaus og beinlaus
Gljái fyrir bleikju
- 50 g púðursykur
- 100 ml vatn
- 100 ml appelsínusafi
- 30 g engifer
- 1 stk stjörnuanís
- 1stk hvítlauksrif
Salat
- 1 stk fennel
- 1 stk appelsína
- 1 stk rautt chili
- 3 greinar ferskt kóríander
- 1 msk hrísgrjónaedik
- 1 tsk hunang
- 2 msk ólífuolía
- salt og pipar
Aðferð:
- Grillið bleikjuna í 1-2 mín á hvorri hlið, fer eftir þykkt.
- Penslið með sírópi
- Kryddið með salti og pipar
- Setjið á disk ásamt salati.
Gljái fyrir bleikju
- Skrælið og skerið engifer í sneiðar.
- Kremjið hvítlauk.
- Setjið allt innihald í pott og sjóðið í síróp – rólega. Þegar sírópið er tilbúið skaltu sigta það.
Salat
- Skerið fennel fínt niður.
- Skrælið appelsínu og skerið í lauf.
- Fræhreinsið chiliið og saxið fínt.
- Saxið kóríander.
- Blandið öllu saman, ásamt ediki og hunangi. Kryddið til með salti og pipar.