Hér er hreint ótrúlega góð kaka sem við mælum heilshugar með. Það er María Gomez á Paz.is sem á uppskriftina sem hún toppar með heimagerðum vanilluís og lakkríssósu.
Klessukaka með heimagerðum vanilluís og lakkríssósu
Klessukaka
- 70 g mjúkt smjör
- 150 g púðursykur
- 1 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 115 g hveiti
- 3 msk. kakó
- 1/2 tsk. matarsódi
- 1/2 tsk. salt
- 100 g mjólkursúkkulaðidropar
- 100 g hvítir súkkulaðidropar
- 10 stk. Walkers-karamellur með lakkrísbragði skornar í 4-6 bita
Ís
- 150 g sykur
- 8 stk. eggjarauður eða 2 dl
- 1/2 lítri rjómi
- 1 tsk. vanilludropar
Lakkríssósa
- 150 g Walkers-karamellur með lakkrísbragði
- 100 g suðusúkkulaði
- 1 1/2 dl rjómi
- klípa af grófu salti
Aðferð:
Klessukaka
- Kveikið á ofninum á 180°C blástur
- Setjið mjúkt smjör, púðursykur, egg og vanilludropa í hrærivélarskál og hrærið saman með hræraranum þar til létt og ljóst
- Setjið svo hveiti, kakó, matarsóda og salt og hrærið áfram þar til er komið klístrað deig
- Skerið karamellurnar í 4-6 bita og bætið út í ásamt súkkulaðidropunum en best er að hræra svo með höndunum eða örstutt í hrærivél því karamellurnar eru harðar
- Bakið í 15-20 mínútur en ég hafði mína í akkúrat 18 mín.
- Best er að bera kökuna fram heita beint úr ofninum með ísnum og heitri sósu
Ís
- Þeytið rjómann og leggið til hliðar
- Þeytið næst eggjarauður, sykur og vanilludropa saman þar til fallega froðukennt og mjúkt og nánast eins og frauð
- Blandið svo eggjarauðufrauðinu saman við rjómann ofurvarlega með sleif þar til vel blandað saman
- Setjið að lokum í mót, helst sílíkonmót, og frystið lágmark átta tíma
Lakkríssósa
- Setjið allt saman í pott yfir meðalhita og leyfið að hitna
- Þegar þið sjáið að súkkulaði er byrjað að bráðna hrærið þá vel í pottinum allan tímann
- Sósan er til þegar karamellur og súkkulaði er alveg bráðnað saman við rjómann og orðið silkimjúkt og slétt
- Berið sósuna fram heita ásamt heitri kökunni og ísnum