Sjúklegur fiskréttur með papriku og camembert – ketó

Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

„Hér er á ferðinni stórkostlega góður fiskréttur sem minnir mig á minn uppáhaldsbrauðrétt, gamla góða papriku- og camembertréttinn sem klárast alltaf fyrst í öllum veislum,“ segir Helena Gunnarsdóttir sem á heiðurinn af uppskriftinni.

Þessi sparilegi fiskréttur á vel heima í veislum en líka bara á þriðjudagskvöldi heima. Það vill líka svo skemmtilega til að rétturinn hentar þeim sem velja ketómataræði einstaklega vel.

Gratíneraður fiskur með papriku og camembert  ketó

4 skammtar

  • 800 g ýsa skorin í bita (7-800 g)
  • 3 paprikur, skornar smátt (2-3)
  • 1⁄2 blaðlaukur, smátt skorinn
  • 250 ml rjómi frá Gott í matinn
  • 1⁄2 askja smurostur með papriku
  • 1 Dala-camembert, skorinn í bita
  • 1 tsk. dijonsinnep
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • 1⁄2 grænmetisteningur
  • rifinn gratínostur frá Gott í matinn, góð handfylli

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 180 gráður.
  2. Skerið ýsuna í bita og saltið aðeins.
  3. Leggið í smurt eldfast mót.
  4. Skerið grænmetið og setjið til hliðar.
  5. Bræðið saman í potti rjóma, smurost og helminginn af camembertostinum, ásamt dijonsinnepi, paprikukryddi og grænmetisteningi.
  6. Smakkið til með svörtum pipar.
  7. Hellið sósunni yfir fiskinn.
  8. Dreifið grænmetinu því næst yfir og toppið með rifnum osti og restinni af camembertostinum, skornum í litla teninga.
  9. Bakið í um það bil 20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn og osturinn gullinbrúnn.
Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert