Kynþokka Helga tappað á bjórdós

Ljósmynd/Mummi Lú

„Þetta gerðist bara, var ekkert útpælt. En bjórinn er drullugóður. Þetta er nefnilega sexí lager, það er smá töggur í honum,“ segir Helgi Björnsson tónlistarmaður.

Á morgun, þriðjudag, hefst sala á nýjum bjór í Vínbúðunum sem ber ásjónu Helga og nafnið vísar til hans, Holy Beer Sexy Lager. Helgi segir að frumkvæðið að gerð bjórsins hafi komið frá Ísólfi Haraldssyni, félaga sínum. Sá er veitingamaður á Akranesi og hefur fengist við bjórgerð. „Hann vildi prófa að brugga einhvern lager sem myndi henta mér og væri í mínum anda. Svo duttum við niður á þessa töfraformúlu. Ég vissi reyndar ekkert að þetta væri komið á það stig að fara í sölu. Það er allt komið á fleygiferð og maður ræður ekki við neitt,“ segir Helgi í léttum tón.

Hann segir aðspurður að hugmyndin hafi kviknað síðasta sumar þegar þættirnir Heima með Helga höfðu notið mikilla vinsælda. Búið var að aflétta samkomutakmörkunum og stemningin í þjóðfélaginu eftir því. „Þetta áttu bara að vera einhver skemmtilegheit og miðinn á bjórnum er flottur.“

Bjórinn er framleiddur í Ægisgarði, brugghúsi úti á Granda. Ólafur S.K. Þorvaldz, yfirbruggari þar á bæ, er ánægður með samstarfið við Helga og félaga hans. „Þetta er lagerbjór sem lýsir anda Helga Björns algjörlega í gegn. Nú ætlum við að reyna að koma þessu í alla landsmenn, svo allir geti verið sexí eins og Helgi. Þarna ertu með kynþokka Helga tappaðan á dós.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka