Ný tegund af Royal-búðingi mun birtast í verslunum á næstu dögum. Bragð nýju tegundarinnar er bananasplitt með hvítu súkkulaði og verður hún aðeins framleidd í takmörkuðu magni.
Royal-búðingur hefur á síðustu árum orðið sífellt vinsælli í bakstur og sem fylling og var nýja tegundin þróuð með það í huga auk þess að vera ljúffengur eftirréttur fyrir alla fjölskylduna.
Nýja tegundin kemur einmitt í tæka tíð fyrir bolludaginn en mælt er með að blanda 4 dl af köldum rjóma við innihald pakkans til að gera bananasplittfyllingu í bollurnar.
„Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með hversu hugmyndaríkir Íslendingar eru þegar kemur að Royal-búðingi. Margir hafa þróað sína eigin fullkomnu blöndu með því að blanda saman tveimur eða fleiri tegundum, auk þess sem vinsælt er að bæta við ferskum ávöxtum og þeyttum rjóma. Margir áhugabakarar eru á því máli að Royal-búðingsduft geri kökuna rakari og mýkri á meðan enn aðrir búa til alls konar girnilegar fyllingar,“ segir Sigurður Finnur Kristjánsson, eða Siggi Royal eins og hann er ávallt kallaður, framleiðslustjóri Royal á Íslandi.
Royal-búðingur hefur verið framleiddur á Íslandi í 67 ár og á sér djúpar rætur í íslenskri matarhefð. Framleiðandi hefur alla tíð verið Agnar Ludvigsson ehf.