Já gott fólk – saltkarið sem þykir það fallegasta í dag er íslensk hönnun og er framleitt úr hvítum steinleir. Yfirheiti vörunnar er „einstök fjöldaframleiðsla“ og kemur úr smiðju Theodóru Alfreðsdóttur.
Við fögnum ávallt íslenskri hönnun og gaman að sjá nýjar vörur spretta upp fyrir eldhúsið. Saltskálar hafa notið mikilla vinsælda í gegnum árin, enda ótrúlega þægilegt að geta gripið í saltið þegar við stöndum í matargerð. Samkvæmt lýsingu segir að hér sé formi skálarinnar leyft að njóta sín. Hugmyndin var að skoða hvernig hægt væri að framleiða vöru með stöðluðum aðferðum og er skálin búin til með því að þrýsta marmarakúlu ofan í leirferning. Ferningurinn er alltaf jafn stór í hvert skipti og kúlan alltaf sú sama. Þó myndast mismunandi sprungur í leirinn, vegna þess hversu lifandi hann er, og þannig verður hver og ein skál með sinn einstaka karakter. Saltskálin er 70x70x30 mm og fæst í versluninni Mikado á Hverfisgötu.