Aha.is hefur gefið út nýtt app sem skilur íslensku og þar með er hægt að nota röddina við innkaupin. Þetta þýðir einfaldlega að um leið og fólk opnar ísskápinn og les upp fyrir appið hvað vantar, eða skoðar uppskrift og segir upphátt hvað er í henni, færast vörurnar inn á innkaupalistann sem verður þá klár til pöntunar.
„Þetta er sannkölluð bylting fyrir okkur sem viljum hafa hlutina einfalda. Nú er hægt að ýta á hnapp í appinu og segja hvað mann vantar og það birtist samstundis á skjánum. Með þessu móti tekur aðeins örfáar sekúndur að finna vörurnar og örfáar mínútur að ganga frá stórri matvörupöntun í símanum sem er magnað,“ segir Helgi Már Þórðarson, annar eigandi Aha.is
„Við höfum verið með appið í þróun í tvö ár og lagt mikla vinnu í að gera upplifunina einfaldari en að fara út í búð. Til að slíkt sé mögulegt þarf þó nokkra viðbótarvirkni sem við höfum verið að smíða og er raddleit á íslensku sú fyrsta sem við kynnum. Einnig er hægt að nota raddstýringuna til að lesa inn innkaupalista í eldhúsinu og setjast svo í sófann og klára kaupin eftir listanum. Ef innkaupalistinn inniheldur t.d. skyr sýnir appið hvaða tegundir eru í boði í viðkomandi verslun og þú velur það sem hentar. Þá eru fjölmargar nýjungar væntanlegar í veitingahlutanum með nýja appinu,” segir Maron Kristófersson, framkvæmdastjóri Aha.is.
Appið býður einnig upp á staðarleit og því er hægt að finna veitingastaði, vörur og upplifanir í nágrenninu.
„Þetta breytir miklu fyrir fólk sem vill spara tíma og einfalda innkaupin. Leitin nýtir sér gervigreind sem þarf að þjálfa og áætlum við að nú þegar hún kemst í almenna notkun taki um 3-5 vikur að ná henni í 95% nákvæmni," segir Maron og bætir við að fleiri viðbætur verði kynntar á næstu misserum, allar sem einfalda fólki lífið og spara tíma.
Aha.is hefur starfrækt markaðstorg á netinu síðan árið 2011 þar sem hægt er að nálgast veitingar, mat, vörur og upplifanir frá hundruðum íslenskra fyrirtækja. Aha sér einnig um sendingar fyrir seljendur á suðvesturhorninu og Akureyri og fara allar sendingar félagsins fram á 100% rafmagnsbílum.