Í október innkölluðu Landnámsegg í Hrísey öll egg vegna dioxin-gilda sem rakin voru til bruna í eyjunni. Nú berast þær gleðifregnir að eggin séu komin aftur í þær verslanir sem áður seldu þau.
„Við erum gríðarlega ánægð með að geta loks selt egg aftur,“ segir Valgeir Magnússon hjá Landnámseggjum. „Eggin okkar hafa verið mjög vinsæl og því var leiðinlegt að við urðum að hætta sölu í þennan tíma. Samstarf okkar við Mast hefur verið gott og vorum við mjög spennt að fá niðurstöðu úr prófi sem var tekið úr eggjunum í byrjun janúar. Það stóðust eggin með glæsibrag og gátum við því hafið sölu á eggjunum á ný.”
„Svo var ekki leiðinlegra að landbúnaðarráðherra kíkti við hjá okkur til að skoða búið strax í kjölfarið og virtist hann hafa mikinn áhuga á því hvernig okkur hefur tekist að koma með nýja nálgun inn á markaðinn sem tekist hefur svona vel í þessari afskekktu byggð. Við ákváðum að skíra einn hanann okkar í höfuðið á ráðherra en haninn sá er einn sá stjórnsamasti í búinu,” bætir Valgeir við.
Landnámsegg er lítið eggjabú í Hrísey þar sem einungis eru haldnar frjálsar og skemmtilegar landnámshænur með hönum. Eggin eru seld í sérhönnuðum umbúðum framleiddum á Íslandi í anda gömlu langhúsa víkinganna. Sjö egg eru í bakka. Eggin eru bragðmeiri en hefðbundin iðnaðaregg, örlítið minni. Landnámshænur verpa ekki daglega eins og iðnaðarhænur og haldast í varpi mun lengur. Elstu hænurnar í búinu eru nú að verða þriggja ára og eru enn að standa sig vel. Markmið eggjabúsins er að virðing þurfi að vera á milli dýra og manna þar sem hænurnar eru svo góðar að verpa fyrir okkur eggjunum.