Andvökunætur! Það kannast allir við að hafa legið hálfu og heilu næturnar að slást við koddann um að festa svefn. Mögulega spilar mataræðið eitthvað þarna inn í – og hér eru matvörur sem gott er að neyta ef þú átt erfitt með svefn. Að sögn svefnráðgjafans Russells Rosenbergs hjá National Sleep Foundation hefur mataræðið mikið að segja um hvernig nóttin þróast.
Góður matur fyrir svefninn
- Kirsuber – innihalda náttúrulegt melatónín sem hjálpar líkamanum að halda daglegri hringrás. Ef þú þjáist af langvarandi svefnleysi skaltu drekka kirsuberjasafa fyrir svefninn.
- Mjólk – Margir hafa prófað að hita mjólk með skvettu af hunangi út í eða kanil og drekka fyrir háttatímann – og það ekki að ástæðulausu. Mjólk inniheldur amínósýruna tryptófan sem serótónín myndast úr. Hátt innihald serótóníns í heilanum hefur afstressandi, róandi og verkjastillandi áhrif – sem getur auðveldað þér að festa svefn.
- Þess má geta að tryptófan má einnig finna í túnfiski, skinku, kalkúnakjöti, eggjum og sojabaunum, en það er ákjósanlegra að drekka mjólk fyrir svefninn til að setja ekki meltingarkerfið í yfirvinnu á háttatíma.
- Bananar – Þessir gulu bognu ávextir innihalda bæði magnesíum og kalíum sem hafa vöðvaslakandi áhrif, svo mögulega væri gott að fá sér mjólkurglas með banana ef þú átt í vandræðum með að sofna. Góðu kolvetnin í banananum hafa einnig mettandi áhrif sem hjálpa til við svefninn og eru almennt mjög góð fyrir heilsuna.
Slæmur matur fyrir svefninn
- Áfengi – Þó að þú sofnir hraðar eftir vínglas, þá eyðileggur áfengi svefninn þinn. Þú sefur bæði léttari svefni og verri. Samkvæmt Health.com fengu konur sem drukku glas af bourbon eða vodka með koffínlausu gosi fyrir svefninn 19 mínútum styttri svefn en ella og gæði svefnsins minnkuðu.
- Kaffi – Eins og flestir vita getur koffínið í kaffi valdið svefnvandamálum og haft veruleg áhrif á svefngæðin. Þar spilar að sjálfsögðu inn í hversu viðkvæmur þú ert fyrir koffíni og hversu vanur þú ert efninu, en betra er að sleppa allri koffíndrykkju fyrir svefninn.
- Súkkulaði – inniheldur einnig koffín, sérstaklega dökkt súkkulaði. Þannig að kaffi og súkkulaði er ekki besta blandan á kvöldin. Súkkulaði inniheldur einnig teóbrómín sem örvar hjartað og getur verið orsök svefnleysis.
- Sterkur matur – að borða sterkan mat seint á kvöldin þykir ekki ákjósanlegt. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem borðar tabasco eða sterkt sinnep á kvöldin á erfiðara með að sofna og ná djúpa svefninum.