Ólafsson-gin í öðru sæti virtrar bragðprófunar

Ólafsson gin er næstbesta fáanlega ginið í martini-kokteila að mati …
Ólafsson gin er næstbesta fáanlega ginið í martini-kokteila að mati hins virta Beverage Testing Institute. Ljósmynd/Aðsend

Tilkynnt var í vikunni að íslenska ginið Ólafsson hefði endað í öðru sæti í árlegri bragðprófun hinnar virtu bandarísku Beverage Testing Institute yfir besta ginið í hinn klassíska martini-kokteil.

„Þetta er eins og að hafa komist í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, svo við erum algjörlega í skýjunum,“ segir Arnar Jón Agnarsson, framkvæmdastjóri Eyland Spirits, framleiðanda ginsins.

Aðeins rúmt ár er frá því Ólafsson kom á markað en það hefur þó verið fjórða mest selda ginið í ÁTVR frá því í desember.

Útflutningur í vor

Og það er margt fram undan að sögn Arnars. Útflutningurinn hefst í vor, bæði til Evrópu og Bandaríkjanna, á Eyjaslóð er verið að leggja lokahönd á tilraunaeldhús og betri stofu fyrir smökkun og á næstu vikum lenda í Vínbúðunum Ólafsson-kokteilar í dós.

Þetta fyrsta framleiðsluár Eyland Spirits hefur reynst fyrirtækinu mjög farsælt en Ólafsson-ginið hefur sankað að sér fjölda verðlauna fyrir innihald og umbúðir. Í haust ætlar félagið að bæta vodka við framleiðslulínu sína.  

„Ég get lofað að það verður ekki síðra að gæðum en ginið,“ segir Arnar og bætir við að markið hafi verið sett hátt. „Við erum með mjög öfluga bakhjarla og erum rétt að byrja,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert