Flest höfum við fremur fastmótaðar hugmyndir um margt – eins og til dæmis samlokur. Því eiga sjálfsagt fæstir von á að þessi svaðalega samloka sé ekki bara löðrandi í smjöri, hráskinku og avókadó heldur er aðalhráefni þorskur.
Við viljum meina að þetta sé mesti bragðlaukaglaðningur sem sést hefur í háa herrans tíð og hvetjum ykkur til að prófa. Lífsgæði ykkar munu aukast umtalsvert fyrir vikið.
Uppskrift fyrir tvo
- 250 g þorskur
- 2 msk. tómatsalsa
- 100 g rifinn mozzarella
- 2 msk. olía
- Salt
- 2 sneiðar hvítt brauð
- 50 g smjör
- 1 hvítlauksgeiri
- Salatblöð
- Tómatar
- Pikklaður laukur
- Hvítlauksmajónes
- Avókadó
- Gúrka
- Hráskinka
- Franskar kartöflur
Aðferð
Fiskur
- Veltið upp úr olíu og saltið eftir smekk.
- Bætið tómatsalsa og rifnum osti yfir fiskinn.
- Bakið á 180°C í 12-15 mín.
Samloka
- Hitið pönnu með smjöri og rífið hvítlauk út á.
- Steikið brauðið á báðum hliðum.
- Útbúið samloku með fiski, hvítlauksmajónesi og öðrum hráefnum.
Berið fram með frönskum kartöflum.