Tempeh, fersk og gerjuð vegan-matvara sem er algerlega framleidd á Íslandi, er væntanleg í matvöruverslanir á næstu tveimur mánuðum að sögn Kristjáns Thors, eins af stofnendum Vegangerðarinnar sem sér um að þróa og framleiða tempeh, meðal annars úr íslensku byggi. Um er að ræða rétt sem á uppruna sinn að rekja til Indónesíu og er lítið þekktur hér á landi þrátt fyrir að vera einn vinsælasti próteingjafi heims.
Kristján, sem er með matreiðslugráðu frá Le Cordon Bleu í Bandaríkjunum, segir að hugmyndin um að byrja íslenska framleiðslu á tempeh hafi sprottið upp árið 2019 eftir að hann kynntist vörunni í Kaupmannahöfn og varð yfir sig hrifinn. Kynnti hann hugmyndina í kjölfarið fyrir meðstofnanda Vegangerðarinnar, Atla Stefáni Yngvasyni. Höfðu þeir þá tekið eftir því að nánast öll vegan-matvæli á landinu voru frosin og innflutt og fundu sig knúna til að finna lausn.
„Við hugsuðum bara: Af hverju getum við ekki gert þetta hérna heima úr íslenskum hráefnum? Af hverju þarf að vera að flytja inn allan þennan mat?“ segir Kristján í samtali við Morgunblaðið. Lausnina sáu Kristján og Atli í tempeh sem auðvelt er að framleiða á Íslandi með algerlega hreinu og fersku hráefni.
Sjá nánari umfjöllun á baksíðu Morgunblaðsins 12. júlí.