Það er enginn annar en Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins sem býður hér upp á lungamjúka og þjóðlega lambaskanka þar sem hráefnið fær sín notið og vinnur vel með öðrum - rétt eins og Framsóknarflokkurinn! Hér er komin önnur uppskrift úr Kjósum rétt röð Heimkaups þar sem formenn flokkanna voru fengnir til að deila uppskrift sem endurspeglaði gildi þeirra og helstu strauma og stefur.
Ómótstæðilegir lambaskankar Sigurðar Inga
Hægeldaðir lambaskankar þar sem hráefnið er í fyrirrúmi og fær að njóta sín, vinnur vel saman hvert með öðru og verður að ómótstæðilegri máltíð í lok dags sem öllum í fjölskyldunni þykir góð.
Hráefni
- 4-6 lambaskankar
- 6 msk. ólífuolía
- 1 laukur, fínt saxaður
- 1-2 gulrætur, fínt saxaðar
- 1-2 stilkar sellerí, fínt saxaðir
- 1 msk. tómatpúrra
- 1 bolli þurrt hvítvín (Sauvignion blanc eða pinot )
- 4 bollar kjúklingasoð (annað hvort úr fernu eða uppleystir teningar)
- 2 msk. blóðberg, saxað
- 1 grein rosmarín (má sleppa)
- 2 lárviðarlauf
- 2 negulnaglar
- 1 msk. steinselja, söxuð
- Salt og pipar
Gremolata
- Steinselja
- Börkur af 1 sítrónu,rifinn, (bara guli hlutinn)
- ristaðar furuhnetur
- Blandað saman í skál og borið fram með.
Aðferð
- Bæði hægt að elda í ofni og í potti á hellu allan tímann. Ef í ofni, hitið ofn í 180°C.
- Þerrið skankana og kryddið vel með salti og pipar.
- Hitið þykkbotna pott og brúnið skankana vel í ólífuolíunni.
- Setjið skankana til hliðar og setjið lauk, gulrætur, sellerí í pottinn og eldið í nokkrar mínútur. Saltið grænmetið til að hjálpa til við að mýkja það.
- Því næst er tómatpúrru bætt í og eldað í svona mínútu. Þá má setja hvítvínið útí og látið malla þar til vökvinn hefur minnkað um helming.
- Þá má setja skankana aftur í pottinn, bæta kjúklingasoðinu í, kryddjurtum, lárviðarlaufum og negulnöglum. Þegar fer að sjóða má setja lokið á og lækka þannig að malli í pottinum og þá má malla í 1 ½ til 2 tíma eða þar til kjötið er við það að detta af beinunum.
- Ef ofninn er notaður - Þegar fer að sjóða má setja lokið á og setja pottinn í ofninn í u.þ.b. 2 tíma eða þar til kjötið er við það að detta af beinunum.
- Veiðið skankana varlega upp úr pottinum og setjið til hliðar, sigtið sósuna í skál og hellið svo aftur í pottinn. Sjóðið hana niður þar til hún þykknar aðeins og hendið því sem fór í sigtið.
- Smakkið til með salti og pipar og þegar sósan er tilbúin setjið skankana aftur í pottinn og látið malla stutta stund.
Borið fram með kartöflumús og gremolata. (Sem hver og einn stráir yfir skanka á sínum diski). Einnig er dásamlega gott að hafa gufusoðið íslenskt grænmeti með.
Íslenskt og gott.
Njótið
Uppskrift frá Sigurði Inga