Hér gefur að líta svokallaða keppnis-brauðtertu sem erfitt verður að toppa og ekki spillir fyrir að hún er úr smiðju Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Uppskriftir flokksformanna eru allar frá Heimkaup sem býður upp á þennan skemmtilega uppskriftagjörning sem kryddar tilveruna svo sannarlega og brýtur upp kosningabaráttuna sem er í algleymi þessa dagana.
„Miðflokksbrauðtertan greinir sig frá öllum öðrum brauðtertum að því leyti að hún er ljúffengari en allar aðrar sinnar tegundar og inniheldur meira af öllu. Það má nota innihaldsefni sömu ættar frá öðrum stöðum, en sá böggull fylgir því skammrifi að þá er verið að sætta sig við það næstbesta.“
Hráefni
- Brauðtertubrauð – hvítt brauð án aðskotahluta s.s. hörfræja og íhaldsbelginga
- að minnsta kosti 500 g Gunnars-majónes, ekki spara það!
- 400 g sýrður Selfossrjómi (sá feitasti)
- 3 tsk. sterkt Seyðisfjarðarsinnep
- Fjarðabyggðarpipar og Raufarhafnarsalt eftir tilfinningu
Rækjufylling
- 500+ g vestfirskar rækjur
- 1 tsk paprikuduft, heimatilbúið frá Patreksfirði
- grímseyskur cayennepipar á sverðsoddi
Eggjafylling
- 10 harðsoðin egg úr sunnlenskri landnámshænu
- 2 hálendisvorlaukar – nota grænu blöðin
- 1/2 tsk þurrkað Borgarfjarðaróreganó
Kjötfylling
- 250+ g soðinn KEA-hamborgarhryggur
- 1 dós blandað ORA-grænmeti
- 2 tsk mauk úr austfirskum sólþurrkuðum tómötum
Önnur innihaldsefni og skraut
- Skynsemi
- Ást
- Handfylli af harðsoðnum eggjasneiðum
- Suðurnesjakokkteiltómatar
- Vestfirsk steinselja
- Slatti af fjallagrösum
Aðferð
- Rækjurnar þíddar og eggin harðsoðin.
- Majónesinu hrært saman við sýrða rjómann og sinnepið í skál og kryddað með pipar og salti.
- Dálítið af blöndunni, svona 100-150 ml, tekið frá til að smyrja á tertuna áður en hún er skreytt.
Majónesblöndunni sem eftir er er skipt nokkurn veginn jafnt í þrjár skálar. Ein skálin krydduð með paprikudufti og cayennepipar, rækjunum blandað saman við.
- Harðsoðnu eggin skorin í sneiðar með eggjaskera, þrjár miðjusneiðar úr hverju eggi teknar frá en hitt skorið smátt og sett út í aðra skál, ásamt smátt söxuðum grænu blöðunum af vorlaukunum og þurrkuðu óreganói og þessu blandað vel saman.
- Eggjasneiðunum sem teknar voru frá pakkað í álpappír og settar í kæli.
- Hamborgarsneiðarnar skornar í litla teninga.
- Blandaða grænmetinu hellt í sigti og skilið frá dósavatninu.
- Sólþurrkuðu tómötunum hrært saman við majónesblönduna í þriðju skálinni og kjötinu og blandaða grænmetinu blandað saman við.
- Brauðbotninum skellt á borð og rækjufyllingunni smurt jafnt yfir hann allan, alveg út á kanta.
- Annar botn lagður þar ofan á og þrýst vel niður með lófunum. Eggjafyllingunni smurt þar ofan á.
- Kjöt- og grænmetisfyllingunni smurt yfir á þriðja botninn og sá fjórði lagður þar ofan á og honum þrýst niður með lófunum. Síðan er best að láta tertuna standa í kæli í allavega nokkra klukkutíma eða til næsta dags svo að botnarnir verði hæfilega rakir og mjúkir. Það er líka hægt að skreyta hana strax og bera fram en hún verður betri ef hún bíður.
- Tertan tekin úr kæli, kantar snyrtir aðeins og tertunni hvolft yfir á bakka.
- Meirihlutanum af fráteknu majónesblöndunni smurt yfir efsta lag tertunnar og afganginum á hliðarnar.
- Fráteknu eggjasneiðunum raðað ofan á tertuna. Kokkteiltómatarnir skornir í tvennt og raðað á kantana með nokkru millibili og eitt knippi af steinselju saxað og dreift utan á tertuna og á brúnirnar. Tertan að endingu skreytt smávegis að ofan með öðrum kryddjurtum.
Sporðrennist með íslensku ropvatni í góðra vina hópi meðan beðið er eftir lokatölum.
Njótið!
Uppskrift frá Sigmundi Davíð.