Hvítlaukurinn seldist upp á sólarhring

Hvítlaukurinn vex hægt og er því afar bragðmikill.
Hvítlaukurinn vex hægt og er því afar bragðmikill. Ljósmynd/Íris Þorsteinsdóttir

Fyrsta hvítlauksuppskeran, sem ræktuð er á stórum skala hérlendis, fékk sérdeilis góðar viðtökur landsmanna og seldist hvítlaukurinn upp á sólarhring í lok september þegar hann kom í búðir. Íslendingar þurfa nú að bíða í heilt ár eftir næstu uppskeru sem mun vonandi verða að minnsta kosti þrisvar til fimm sinnum stærri en sú síðasta.

„Það var bara áhlaup á Hagkaup og hvítlaukurinn seldist upp á 24 tímum. Þannig að þetta var þvílík velgengni en það hefði mátt vera betri uppskera,“ segir Hörður Bender, hvítlauksbóndi á Efri-Úlfsstöðum í Austur-Landeyjum. Hann hefur ásamt konu sinni Þórunni Jónsdóttur og fimm börnum unnið hörðum höndum að uppskerunni undanfarið ár.

Hægur vöxtur og mikið bragð

Aðspurður kveðst Hörður hafa fundið fyrir miklum undirtektum meðal landsmanna sem voru hæstánægðir með hvítlaukinn enda býður íslenska veðráttan upp á afar hægan vöxt sem skilar sterku bragði.

„Það er fullt af fólki búið að deila þessu á samfélagsmiðlum. Þetta er rosalega góður hvítlaukur, það vantar ekki. Það er mikið bragð af honum.“

Segir Hörður nú næstu skref felast í að finna út hvernig skuli standa að ræktuninni þannig að hún skili meiri afköstum. Uppskeran í ár nam einu tonni en búist var við helmingi meira. Vonar Hörður nú að næsta sumar muni skila meiri árangri.

„Ég setti niður þrisvar sinnum meira af þessari tegund sem var að virka, þannig að ég ætti að fá allavega svona þrjú til fimm tonn. Svo er bara spurning hvernig hinar þrjár tegundirnar koma út,“ segir Hörður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert