Sykurverk er veisluþjónusta og fjölskylduvænt kaffihús á Akureyri með góðu barnahorni og spennandi veitingum.
„Við bjóðum upp á fjölda af alls kyns spennandi og áður óséðum bragðtegundum af kökum, makkarónum og „cupcakes“ sem og klassískar brauðtertur, skonsutertur, rjóma- og marengstertur sem er hægt að njóta á staðnum eða taka með sér heim. Einnig bjóðum við upp á crêpes, allskyns barnabita og vegan valkosti.“ Svona lýsir Helena Guðmundsdóttir, dóttir hennar Karólína Helenudóttir og systir Karólínu, Þórunn Jóna Héðinsdóttir, úrvalinu í Sykurverk, fjölskyldufyrirtæki þeirra, en þær stofnuðu þjónustuna í miðjum Covid faraldri. Nú standa þær fyrir söfnun til að geta flutt í betra húsnæði svo að þær geti annað eftirspurn og þurfi ekki að vísa fólki frá vegna plássleysis.
„Allt sem að við bjóðum upp á er framleitt á staðnum, með okkar eigin uppskriftum sem við höfum hannað sjálfar,“ sagði hún.
„Við opnuðum fyrir rúmu ári síðan og viðtökurnar hafa verið svo magnaðar að húsnæðið sem við erum í er að hefta okkar framleiðslu. Okkur hefur boðist nýtt húsnæði á leigu með sömu kjörum og það er tvisvar sinnum stærra eldhús þar. Kostnaðurinn við að flytja er okkur mjög erfiður þar sem það þarf að innrétta þetta húsnæði með öllu, eins höfum við látið duga litlar hrærivélar og oft að hræra kökur í höndunum svo við þurfum að fjárfesta í stærri tækjum og borðin okkar og borðbúnaður þarf uppfærslu svo eitthvað sé nefnt. Allar merkingar eru líka kostnaðarsamar,“ útskýrir Helena.
„Við opnuðum kaffihúsið okkar í miðjum Covid-faraldri og reksturinn síðastliðið ár ber merki af því, en við lifðum það af og erum enn standandi og gefumst ekki upp því við höfum fengið það góðar viðtökur og trúum á að mun fleiri eigi eftir að eiga viðskipti við okkur,“ segir hún en þær Karólína og Þórunn ákváðu að láta reyna á söfnun í gegnum söfnunarsíðuna Karolina Fund.
„Við höfum trú á að fólk vilji koma og njóta með okkur á nýja staðnum sem er líka í miðbæ Akureyrar og mun setja svip sinn á bæinn og vonandi auka mannlífið sérstaklega yfir sumartímann því útisvæðið er svo frábært á nýja staðnum.“
Segja mæðgurnar að markmið þeirra sé að geta glatt sem flesta með fallegum og bragðgóðum kökum fyrir hvers konar tilefni.
„Eins að geta boðið upp á fallegar kökur á kaffihúsinu okkar svo þegar þú kemur á kaffihúsið sé það ekki eins og flest önnur kaffihús heldur meira eins og upplifun að koma í bleikt og fallegt nammiland. Við erum einnig með smá sjoppu hjá okkur sem við seljum allskonar öðruvísi og áhugavert sælgæti,“ segja þær.
Mæðgurnar hafa þegar náð um helming af markmiði sínu með söfnuninni á Karolina Fund en henni líkur á sunnudag og ætla þær í tilefni af því að halda sérstakt söfnunarpartí í Brekkugötu á Akureyri.