Spennandi að keppa við þá bestu

Sigurjón Bragi Geirsson kokkur.
Sigurjón Bragi Geirsson kokkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður er ennþá í vinnu en ég er hægt og rólega að byrja að undirbúa mig. Það fer að styttast í að maður færi sig alveg yfir í æfingaaðstöðuna í Fastus,“ segir Sigurjón Bragi Geirsson sem verður fulltrúi Íslands í matreiðslukeppninni Bocuse d'Or í mars á næsta ári. Þá fer undankeppni Evrópu fram í Búdapest en ári síðar fer svo aðalkeppnin fram í Lyon í Frakklandi. Til þess að komast þangað þarf Sigurjón að ná einu af tíu efstu sætunum í undankeppninni.

Tilkynnt var í byrjun vikunnar að Sigurjón yrði fulltrúi Íslands. Í fyrsta sinn gáfu tveir kost á sér til þátttöku og þurftu þeir því að keppa sín á milli. Sigurjón, sem var kokkur ársins 2019, atti kappi við Denis Grbic, sem var kokkur ársins 2018, og bar sigur úr býtum.

Hefur fengið mikinn stuðning

Þátttaka í Bocuse d'Or er ekkert hobbí eða hliðarverkefni. Sigurjón gefur sig allan að verkefninu á næstu mánuðum og vonandi lengur ef hann kemst í aðalkeppnina.

„Það er magnað hvað þeir hafa sýnt þessu mikinn skilning í vinnunni. Ég hef líka fengið mikinn stuðning heima fyrir,“ segir Sigurjón sem er kvæntur þriggja barna faðir. Hann starfar sem yfirkokkur á Héðinn kitchen & bar en hefur áður unnið til að mynda á Kolabrautinni í Hörpu, á Essensia og hjá Múlakaffi. Hann var í kokkalandsliðinu um nokkurra ára skeið og þjálfaði liðið þegar það náði 3. sæti á Ólympíuleikunum árið 2019.

Friðgeir Ingi Eiríksson hjá Braserie Eiríksson og Sigurjón Bragi Geirsson.
Friðgeir Ingi Eiríksson hjá Braserie Eiríksson og Sigurjón Bragi Geirsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Safnar liði fyrir keppnina

Fyrsta verk í undirbúningnum er að setja saman teymi sem verður með Sigurjóni á Bocuse d'Or. „Það verða 4-5 sem verða alveg í þessu með mér. Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Sigurjón sem hefur þegar gengið frá því að Sigurður Kristinn Laufdal, sem keppti í Bocuse d'Or á dögunum og hafnaði í fjórða sæti, verður þjálfari hans. Þá mun Hugi Rafn Stefánsson verða aðstoðarmaður Sigurjóns en hann starfar um þessar mundir í Noregi.

Færir fórnir til að keppa

„Það er ástæða fyrir því að maður fer út í þetta, það er eitthvað sem drífur mann áfram. Auðvitað er spennandi að geta keppt við þá bestu í heiminum og að eiga möguleika á að sigra. Þetta er bara eins og að komast á Ólympíuleikana. Það þarf auðvitað að fórna einhverju fyrir það og nú er ég í þeirri stöðu að ég get gert það. Mér líður eins og ég geti bæði gert það persónulega og á þeim stað sem ég er á ferlinum. Ég er ekki viss um að ég gæti gert það eftir tíu ár. Þá er maður orðinn aðeins eldri og kannski ekki með sama drifkraft,“ segir Sigurjón sem er 34 ára gamall.

Lengra viðtal við Sigurjón má nálgast í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert