Veitingastaðnum Eldsmiðjunni verður lokað á næsta ári þegar Gleðipinnar opna nýjan pítsastað í húsnæði staðarins á Suðurlandsbraut 12. Eldsmiðjan hefur verið starfrækt í 35 ár, frá 1986.
„Pizzamarkaðurinn hefur þróast mikið og breyst á liðnum árum og Eldsmiðjan í núverandi mynd féll ekki fullkomlega að framtíðarsýn okkar Gleðipinna,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.
„Okkur Gleðipinnum þykir afar vænt um Eldsmiðjuna og það má segja að hún sé að fara í ótímabundið frí. Vörumerkið er rótgróið og sterkt og við munum að sjálfsögðu varðveita það áfram,“ segir Jóhannes ennfremur.
Gleðipinnar reka pítsastaðaina Blackbox og Shake&Pizza og á nýju ári bætist OLIFA - La Madre Pizza við. Eins og komið hefur fram er sá staður hugarfóstur hjónanna Ásu Maríu Reginsdóttur og Emils Hallfreðssonar.
„Okkur finnst gaman að gera nýja og skemmtilega hluti og þess vegna fannst okkur tilvalið að nýta Eldsmiðjustaðinn á Suðurlandsbraut undir OLIFA La Madre Pizza. En þó að Eldsmiðjan sé farin í frí þá er aldrei að vita nema hún skjóti upp kollinum aftur síðar,“ segir Jóhannes að endingu.