Á dögunum kom út bókin Heimabarinn eftir þá Ivan Svan Corvasce og Andra Davíð Pétursson. Bókin inniheldur mikinn fjölda uppskrifta að bæði áfengum og óáfengum kokteilum, auk ítarlegrar kennslu, fróðleiks um aðferðir og víntegundir. Má því segja að bókin innihaldi flest það sem þarf til að geta blandað góðan drykk.
Það eru barþjónarnir Ivan Svanur og Andri Davíð sem eru höfundar bókarinnar er báðir eru þeir þungavigtarmenn í faginu og hafa getið sér gott orð hér heima sem erlendis. Að sögn þeirra félaga ákváðu þeir að leiða hesta sína saman eftir að í ljós kom að þeir höfðu báðir fengið nákvæmlega sömu hugmynd að því að gera kokteilabók. Í framhaldinu fór af stað yfirgripsmikil vinna þar sem ákveðið var hvernig að verkinu yrði staðið.
Útkoman er einstaklega vel heppnuð bók sem inniheldur mikinn fróðleik, fullt af ómissandi uppskriftun svo ekki sé minnst á forkunnarfagrar myndir eftir Kristinn Magnússon.