Malt og appelsín er algjörlega ómissandi á flestum íslenskum heimilum fyrir jólin. Fjölskyldur eru þó margar með afar mismunandi blöndunaraðferðir og ólíkar uppskriftir af drykknum góða.
Rætt var um jóladrykkinn í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 á dögunum og deildu hlustendur sínum aðferðum við að blanda drykkinn með þeim Kristínu Sif, Jóni Axel og Ásgeiri Páli.
Einn hlustandi sem hringdi inn í þáttinn deildi því að hans fjölskylda blandaði saman akkúrat jafn miklu magni af malti og appelsíni en bætti svo smá rommi út í drykkinn.
Annar sem hringdi inn sagði það vera ómissandi að setja örlítinn kókdropa með. „60% af malti, 35% af appelsíni og 5% af kóki.“
Hlustandi nokkur sem hringdi inn sagðist hafa grátið í nokkra daga þegar í ljós kom að hvítöl Egils verður ekki á boðstólnum í ár en hún segir algjörlega nauðsynlegt að blanda hvítöli með maltinu og appelsíninu. Hlustandinn gat þó huggað sig við það að von er á hvítölinu góða aftur á næsta ári en hún notar á meðan danskt hvítöl.
„Þetta sýnir hvað við erum rosalega föst í hefðum og maður verður bara svekktur og sár, “ sagði hlustandinn en margir áttu góðar minningar af hvítölinu sem rifjaðar voru upp í þættinum en hægt er að hlusta á hann í spilaranum hér að ofan.