Nærri helmingur landsmanna hyggst gæða sér á hamborgarhrygg í kvöld, eða um 47% ef marka má könnun MMR á borðhaldi landsmanna fyrir þessi jól.
Lambakjöt, annað en hangikjöt, situr eins og síðustu tvö ár í öðru sæti mælinga með 10%.
Þeim fjölgar á sama tíma sem segjast ætla að gæða sér á nautakjöti, en 6% aðspurðra svöruðu á þá leið.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hefur dregið úr vinsældum grænmetisfæðis, sem missir sæti sitt á lista yfir sex vinsælustu hátíðarréttina til andarinnar, en fjögur prósent sögðust myndu snæða önd í kvöld.
Hamborgarhryggurinn reyndist vinsælli hjá svarendum 50-67 ára þetta árið (52%) en hjá svarendum annarra aldurshópa.
Svarendur elsta aldurshópsins reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ætla að snæða lambakjöt annað en hangikjöt (18%) eða önd (8%) á aðfangadagskvöld.
Fóru vinsældir beggja rétta minnkandi með lækkuðum aldri svarenda. Þá reyndust svarendur í yngsta aldurshópi líklegastir allra til að segjast ætla að gæða sér á kalkún (11%) eða öðrum réttum en þeim sem hér eru taldir upp (22%).
Stuðningsfólk Flokks fólksins (57%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast ætla að borða hamborgarhrygg á aðfangadag en stuðningsfólk Pírata (37%) ólíklegast. Stuðningsfólk Miðflokksins (17%) og Framsóknarflokksins (15%) reyndist líklegast allra til að segjast ætla að gæða sér á lambakjöti öðru en hangikjöti.
Stuðningsmenn Miðflokksins, ásamt stuðningsfólki Viðreisnar, reyndist einnig líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast ætla að snæða nautakjöt (10%) á aðfangadagskvöld.
Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 20. desember og var heildarfjöldi svarenda 2.051 einstaklingur, 18 ára og eldri.