Kaka ársins 2022, sem svo er kölluð, kemur í sölu í dag, samkvæmt venju rétt fyrir konudaginn. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir iðnaðarráðherra tók í gær á móti fyrstu kökunni, sem valin var eftir keppni meðal bakara. Sigurvegarinn í ár var Rúnar Felixson, bakarameistari hjá Mosfellsbakaríi. Kakan, sem þykir sérstaklega bragðgóð, er með pistasíu-mousse með creme-brulee-miðju, hindberjageli og stökkum pistasíubotni, hjúpuð súkkulaði og toppuð með pistasíukremi. Hún verður í sölu í bakaríum landsins út þetta ár.
„Ég hafði lengi haft í huga að búa til köku þar sem hindber og pistasíuhnetur væru saman. Þetta þurfti auðvitað sína útfærslu og nokkrar tilraunir, en svo gekk allt upp að lokum,“ segir Rúnar Felixson bakari í samtali við Morgunblaðið. Alls tíu kökur bárust í keppnina, fjórar komust í undanúrslit og Rúnar átti tvær þeirra. Hin kakan úr hans smiðju var með mandarínur og heslihnetur sem uppistöðu. Bragðast vel, segir bakarinn, sem telur ekki ólíklegt að hnossgæti þetta fari í sölu í sumar.
Rúnar Felixson hefur starfað við bakaraiðnina í alls 31 ár. Hóf störf í Mosfellsbakaríi síðasta haust en hefur komið víða við á löngum ferli.
„Mér finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt starf. Er alltaf að fá nýjar og skemmtilegar hugmyndir að einhverju sem útbúa má og sigur í keppninni nú er pepp til að halda áfram. Hér í Mosfellsbakaríi er kökubaksturinn á minni könnu, bæði það sem er selt í búðinni og sérpantað til dæmis í veislur. Núna eru skemmtilegir tímar að ganga í garð í starfinu, konudagurinn er rétt að detta inn, svo kemur bolludagurinn sem er mikil hátíð í nánast heila viku. Þegar henni sleppir er síðan orðið stutt í fyrstu fermingarnar með öllum sínum veislum,“ segir Rúnar.