Lúxus mexíkósk kjúklingasúpa sem toppar flest

Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Hér gefur að líta eina þá svaðalegustu útgáfu af uppáhalds uppskrift landsmanna - sjálfri mexíkó kjúklingasúpunni.

Það er Snorri Guðmunds á Matur & myndir sem á þessa útgáfu sem hann kallar sína útgáfu af uppáhalds súpu landsmanna.

„Við höfum öll fengið mexíkóska kjúklingasúpu ótal oft í fermingum og afmælum, enda algjör „crowd pleaser“. Mér þykir best að nota temmilega sterka salsa sósu í súpuna ásamt smá chipotle mauki, en það má að sjálfsögðu nota milda salsa og sleppa chipotle maukinu ef þú vilt mildari og barnvænni súpu,“ segir Snorri um þessa súpu sem við skorum á ykkur að prófa.

Lúxus mexíkósk kjúklingasúpa með nachos, rifnum osti og lárperu

Fyrir 4

  • 600 g kjúklingalæri skinn & beinlaus
  • 1 msk. Mexíkóveisla (Pottagaldrar)
  • 1 stk. rauðlaukur
  • 1 stk. paprika rauð
  • 4 msk. tómatpúrra
  • 4 msk. taco krydd
  • 1 - 1,5 stk. kjúklingateningur Kallo
  • 2 tsk. hvítlauksduft
  • 400 g niðursoðnir tómatar
  • 250 ml salsa sósa
  • 2 tsk. Chipotle mauk - má sleppa
  • 90 g rifinn ostur
  • 100 g nachos
  • 120 ml sýrður rjómi 18%
  • 2 stk. lárpera
  • 10 g kóríander
  • 150 g Philadelphia rjómaostur

Aðferð:

  1. Setjið kjúklingalæri í skál með olíu, Mexíkóveislu og 2 tsk. af flögusalti. Blandið vel saman og látið marinerast í 30 mín.
  2. Forhitið ofn í 180°C með blæstri. Raðið kjúklingalærum á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í 30-35 mín.
  3. Saxið papriku og rauðlauk (geymið smá til að toppa súpuna með). Hitið smá olíu í potti og steikið papriku og rauðlauk við miðlungshita þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Bætið tómatpúrru, taco kryddi, kjúklingatening og hvítlauksdufti út í og steikið í 1-2 mín. Bætið salsa sósu, chipotle mauki, niðursoðnum tómötum og 1 líter af vatni út í. Hrærið vel saman og látið malla með loki í um 15 mín. Smakkið til með meiri kjúklingakraft ef þarf.
  4. Bætið rjómaost út í pottinn og látið malla við vægan hita í um 5-10 mín og hrærið vandlega. Smakkið súpuna til með salti og pipar ef þess þarf. Notið tvo gaffla til þess að rífa kjúklingalærin í sundur og bætið út í súpuna.
  5. Skerið lárperu í bita og saxið kóríander eftir smekk. Toppið súpuna með rifnum osti, kóríander, rauðlauk, lárperu og nachos flögum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert