Kaffihúsið og micro-bakaríið Hygge var opnað í Héðinshúsinu á dögunum og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framúrskarandi veitingar, forkunnarfagra hönnun og notalegt andrúmsloft. Rýmið þykir einstaklega vel heppnað en það er Sara Jónsdóttir sem hefur veg og vanda af henni.
Sara á langan og litríkan feril að baki og hefur hönnun hennar vakið verðskuldaða athygli. „Ég hanna rými, oftast fyrir fyrirtæki en stundum líka fyrir einstaklinga. Ég hef hannað ýmiss konar rými svo sem skrifstofuhúsnæði, hótel, verslun, kaffihús og bakarí. Ég kem yfirleitt snemma inn í ferlið og tek þá þátt í þróun á konsepti þess staðar sem um ræðir. Ég hanna stundum frá grunni en hef líka tekið að mér ráðgjöf og endurbætur á rýmum sem á að þróa í nýja átt. Hygge var að vissu leyti þess háttar verkefni“, segir Sara aðspurð.
„Elías Guðmundsson og Viggó Vigfússon nálguðust mig með hugmyndina. Þeir vildu opna huggulegt kaffihús og svokallað micro-bakarí þar sem allt bakkelsi er bakað á staðnum. Svolítið dönsk stemning eins og nafnið gefur til kynna. Rýmið hafði verið hannað um leið og hótelið og veitingastaðurinn Héðinn svo grunnurinn var til staðar. Í samtalinu fundum við hins vegar strax að Hygge þyrfti annað andrúmsloft og stemningu. Þar er ekki hátt til lofts og vítt til veggja eins og í hinum rýmum húsnæðisins og mér fannst því áhugavert að draga fram lágstemmda kósístemningu með hlýjum litum, náttúrulegum efnum, og lýsingunni sem er dempuð og afmörkuð við hvert borð.“
Hvaða efni varst þú helst að nota?
Stutta svarið er: efni úr náttúrunni. Gólfefnið er linoleum, afgreiðsluborðið traventino steinn, borðplötur, hillur og bekkir úr olíuborinni litaðri eik og ljósin úr leir.
Hvaðan eru húsgögnin?
Sófastóla fékk ég frá Húsgagnahöllinni, teppi frá Epal, en annað er að mestu leyti sérsmíði. Afgreiðsluborðið og allt timburverk er unnið af fyrirtækinu Viðhald og nýsmíði. Stólarnir sem eru frá 366 Concept voru til staðar og grunnur að bekkjum, sem við tókum í yfirhalningu sem hentaði nýrri stemningu betur.
Hvaðan eru ljósin?
Ljósin og leirtau eru frá Birgitte Munch Ceramics. Ég var með ákveðnar hugmyndir um form og liti og vildi að yfirbragðið væri lífrænt og handgert, sem það vissulega er. Birgitte tók hugmyndirnar áfram og þróaði blöndun úr íslenskum leir og gerði ólíkar glerungaprufur. Hún vann þetta allt í stúdíóinu sínu á Korpúlfsstöðum en hvert einasta ljós er rennt og hún handgerði bollana. Hver hlutur er því einstakur.
Hvert var markmiðið?
Markmiðið var að gera notalegan og stælalausan stað þar sem gott er að vera.
Auk þess að sinna hönnunarverkefnum í dag er hún í samstarfi við Maríu Kristínu Jónsdóttur að setja á laggirnar frumkvöðlafyrirtækið On to Something þar sem þær ætla að láta til sín taka við eflingu hringrásarhagkerfisins.
Meðal verkefna Söru: Brauð & Co bakaríin, Mánabar, græna herbergi og önnur starfsmannarými í Þjóðleikhúsinu, Súpa, Intenta, KEX hostel, Lemon, Jónsson & Lemacks, Íslenskir Fjallaleiðsögumenn og Kaupmaðurinn.
Auk þess hefur hún hannað húsgögn og innréttingar, stýrt viðburðum og verið sýningarstjóri, meðal annars sýningar á síðastliðnu ári um Ástu Sigurðardóttur sem sett var upp samhliða leikverkinu Ástu í Þjóðleikhúsinu og Fylgið okkur, sýning um íslenska hönnun í Gerðarsafni.