George Motz lauk Evróputúrnum á Smass í Hafnarstræti

George Motz gæddi sér á hamborgara á veitingastaðnum Smass.
George Motz gæddi sér á hamborgara á veitingastaðnum Smass. Ljósmynd/Smass

Bandaríski hamborgarasérfræðingurinn George Motz lauk Evrópureisu sinni á hamborgarastaðnum Smass í Hafnarstræti. Í reisunni ferðaðist Motz á milli landa og steikti Oklahoma onion hamborgara ofan í viðskiptavini á ýmsum hamborgarastöðum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Smass.

Motz stýrði sjónvarpsþáttunum Burger Land frá árinu 2012-2013 en auk þess hefur hann gefið út nokkrar bækur um hamborgara. Einnig stýrði hann heimildarmyndinni Hamburger America.

Opinn og vinalegur

Hlédís Maren Guðmundsdóttur markaðsstjóri Smass tók á móti Motz.

„Það var magnað að hitta hann, enda algjör goðsögn meðal fólks sem hefur áhuga á matreiðslu. Það er erfitt að finna nokkurn sem er stærra nafn í hamborgarabransanum. Þar að auki er hann ótrúlega skemmtilegur, opinn og vinalegur,“ er haft eftir Hlédísi í fréttatilkynningu.

Heiður að steikja fyrir Motz

„Ég fékk heiðurinn af því að steikja sjálf ofan í hann einn Oklahoma Onion borgara. Það var sérstök upplifun, enda var hann hæstánægður með borgarann. Hann sagði að það væri loksins hægt að fá almennilegan hamborgara á Íslandi. Við erum auðvitað á sömu bylgjulengd með margt, enda smössum við borgarana með sömu aðferð og hann.

George var mest hissa að sjá Martin‘s Potato Rolls á Íslandi, enda eru það hans eftirlætis hamborgarabrauð. Þau eru margrómuð fyrir að vera þau allra bestu í bransanum vestanhafs og hafa unnið ófáar bragðsamkeppnir. Þau fást hvergi annars staðar á Íslandi en á Smass. Vorum við sammála um að þau geri gæfumuninn,“ er haft eftir Hlédísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert