Sigurður Már Guðjónsson, bakari og konditor hjá Bernhöftsbakaríi, var í gær valinn kökugerðarmaður ársins á heimsþingi Alþjóðasamtaka bakara og kökugerðarmanna (e. International Union of Bakers and Confectioners). Heimsþingið fór fram á Íslandi.
„Ég tek bara auðmjúkur við þessu en það eru margir hæfileikaríkir fagmenn úti og væntanlega erfitt fyrir þá að velja hver eigi að fá þetta hverju sinni,“ segir Sigurður Már í samtali við mbl.is.
Auk þess að velja kökugerðarmann ársins var einnig bakari ársins valinn. Að þessu sinni var það Þjóðverjinn Axel Schmitt sem hlaut þá viðurkenningu. Viðurkenningarnar tvær eru æðstu viðurkenningar sem bökurum og kökugerðarmönnum getur hlotnast í heiminum.
Sigurður Már fékk að vita að hann myndi hljóta viðurkenninguna fyrir tveimur dögum til þess að hann gæti undirbúið eftirrétt fyrir þinggesti.
„Fyrsta sem mér datt í hug var að breyta köku ársins árið 2011, sem var vinsælasta kakan hjá mér, í eftirrétt. Úr varð sítrónu- og vanilluskyrmús með hindberjakjarna,“ segir Sigurður Már.
Eins og segir héldu samtökin heimsþing sitt á Íslandi og er um að ræða stærsta viðburð sem haldinn hefur verið í bakarastéttinni á Íslandi, en alls sækja 70 bakarar frá fimm heimsálfum þingið.