Elenora Rós sendir frá sér nýja bók

Ljósmynd/Ína María

Metsöluhöfundurinn Elenora Rós sendir frá sér nýja bók fyrir jólin en bókin en væntanleg í verslanir í næstu viku. Bókin er sneisafull af dýrindis uppskriftum að kökum og bakkelsi eins og við elskum öll en við gerð hennar gróf Elenora upp allar uppáhaldsuppskriftir sínar sem hafa fylgt henni og fjölskyldu hennar í gegnum árin.

Fyrsta bók Elenoru Rósar kom út fyrir tveimur árum og varð strax metsölubók. Í bókinni kenndi hún lesendum allt sem kunna þarf til að baka úr súrdeigi en bókin fékk frábærar viðtökur og er í uppáhaldi hjá mörgum.

„Ég var strax farin að hugsa um næstu bók um leið og sú síðasta var komin út,“ segir Elenora aðspurð. „Ég hitti ritstjórann minn síðasta haust þar sem við unnum saman að öðru verkefni. Við vorum staddar í Hagkaup þegar við rekum augun í bókina mína og í framhaldinu hefst umræða um næstu bók. Áður en ég veit af vorum við búnar að ákveða hvernig við vildum hafa bókina og í framhaldinu hef ég samband við Eddu útgáfu sem gaf út fyrri bókina. Þær tóku heldur betur vel í hugmyndina og þá var ekki eftir neinu að bíða,“ segir Elenóra. Hún tók sjálf allar myndir í bókina, sem skiptist í fimm kafla.

Sjálfsvinnan endurspeglast í bókinni

„Ég hóf mikla sjálfsvinnu á svipuðum tíma og ég gaf út síðustu bók og ég held að það endurspeglist vel í þessari bók. Þessi bók er eins persónuleg og þær gerast. Mamma gaf mér allar æskuuppskriftabækurnar mínar, handskrifaðar með fallegu skriftinni hennar og útataðar í slettum, og í þeim fann ég allar uppskriftirnar sem ég var staðráðin í að nota. Í bókinni eru einnig keppnisuppskriftir frá mér, uppskriftir frá viðburðum sem ég hef haldið, uppskriftir sem ég hef búið til fyrir próf og sankað að mér síðan ég byrjaði að læra. Hún endurspeglar mig sem bakara alveg frá barnsaldri og þangað til í dag, útskrifaður bakari að gefa út bók í annað skipti. Það eru alls konar sætar sögur í bókinni og langur formáli sem er mjög persónulegur og innilegur,“ segir Elenora og má því segja að saga hennar sé sögð í gegnum uppskriftirnar í bókinni.

„Í bókinni eru fjölmargar uppskriftir, eins og vinsælu hnetusmjörskökurnar mínar, guðdómlegt „lemontart“, dúnmjúkir kanilsnúðar, klassískar og frumlegar brauðtertur, alls kyns ostakökur og góðir grunnar að tertubotnum, fyllingum og kremi.“

Vildi að bókin væri upplifun

„Mig langaði rosalega að búa til bók sem væri upplifun en ekki bara uppskriftir. Ég lagði mikið í að hafa lifandi myndir sem myndu heltaka augað en þó sýna lesandanum að þetta eru allt uppskriftir sem allir geta gert. Það er í raun hægt að lesa bókina og njóta hennar eins og sögubókar því í henni leynast alls konar sögur og persónuleg reynsla. Lesandinn getur rennt í gegnum bókina og kynnst mér í leiðinni, fyllt hjartað, glatt augað, fengið hugmyndir, hlegið og jafnvel fengið nokkrar hugmyndir um hvað er að dreyma stórt þrátt fyrir að ferlið að stóru draumunum sé ekki alltaf bein lína,“ segir Elenora en hún hefur vakið mikla athygli og aðdáun fyrir hversu hreinskilin, einlæg og opin hún er.

Hver er munurinn á þessari bók og þeirri fyrri?

„Síðasta bókin mín snerist í raun alfarið um brauð. Hún skiptist í súrdeig, sætabrauð, brauðrétti, samlokur og íslenskt bakkelsi. Myndirnar voru dökkar en litríkar og frekar dramatískar. Hún var rosalega „rustic“ og ofboðslega bakarísleg. Hún sýnir eina hlið; þessa skessuhlið á mér, sem er stundum subba og smá klaufi, hlæ hæst af öllum og er almennt mikið fiðrildi. Þessi bók fjallar um hina hliðina á mér. Hún er einlæg, innileg, ofboðslega persónuleg. Hún er yfirleitt að springa úr þakklæti og elskar að tengja allt við góðar minningar og fólkið sitt. Þessi bók er um kökur, eftirrétti, fyllingar, krem, brauðtertur og sunnudagsbakstur. Í henni eru alls kyns uppskriftir sem gaman er að njóta með þeim sem manni þykir vænt um og gaman er að gleðja fólkið sitt. Hún er tilvalin um jólin, í afmæli og annars konar veislur, gott kvöldkaffi eða sunnudagskaffi og bara almennt ef mann langar í eitthvað hrikalega gómsætt,“ segir Elenóra en bókin kallast því viðeigandi nafni Bakað meira með Elenoru Rós, og er, eins og áður segir, væntanleg í verslanir í næstu viku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert