Kjötbollurnar sem krakkarnir elska

Geggjaðar kjötbollur fyrir káta krakka.
Geggjaðar kjötbollur fyrir káta krakka. mbl.is/Jamie Oliver

Krakkarnir á heimilinu munu elska þessar kjötbollur  sem eru gómsætar og næringarríkar á sama tíma. Hér höfum við fullkominn hversdagsrétt sem krakkarnir geta hjálpað til við að elda. 

Það er enginn annar en meistarakokkurinn Jamie Oliver sem á heiðurinn af þessari uppskrift sem eflaust hefur verið margoft í kvöldmatinn heima hjá honum.

Kjötbollur fyrir káta krakka

  • 1 laukur
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 kúrbítur
  • 6 kastaníusveppir
  • ólífuolía
  • 200 g nautahakk
  • 200 g svínahakk
  • 50 g grófur brauðraspur
  • 20 g parmesanostur
  • 1 stórt egg
  • 600 g krukka af passat

Aðferð:

  1. Afhýðið laukinn og 2 hvítlauksrif. Rífið gróft ásamt kúrbít og sveppum og setjið svo allt á stóra pönnu á meðalhita ásamt 1 msk. af ólífuolíu. Eldið í 10 mínútur eða þar til mjúkt. 
  2. Hellið grænmetinu í skál og látið kólna. Bætið þá nauta- og svínahakki saman við ásamt brauðmylsnunni. Rífið mest af parmesanostinum út í og brjótið eggið saman við. Kryddið með smá svörtum pipar og blandið öllu vel saman. 
  3. Mótið 24 litlar bollur og setjið á bakka og inn í ísskáp í 10 mínútur. 
  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bollurnar í 8-10 mínútur, eða þar til gullinbrúnar. Munið að snúa þeim reglulega. 
  5. Saxið smátt afganginn af hvítlauknum og setjið út á pönnuna ásamt passatanu. Veltið bollunum upp úr sósunni og látið malla í 30 mínútur þar til bollurnar eru eldaðar og sósan orðin þykk og ljúffeng. 

Uppskrift: Jamie Oliver

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka