Kveðja Steðja með áramótabombu

Árni Long, bruggmeistari hjá Borg, og Philipp Ewers, fyrrum bruggmeistari …
Árni Long, bruggmeistari hjá Borg, og Philipp Ewers, fyrrum bruggmeistari Steðja, voru sáttir við samstarfsbruggið. Þeir skáluðu í bjórum beggja brugghúsa þegar þeir unnu að Steðjakveðju.

Síðustu ár hefur orðið til sú hefð að Borg brugghús fær til sín kollega frá öðrum handverksbrugghúsum og úr verður samstarfsbrugg sem lítur dagsins ljós fyrir áramótin. Þannig hafa áramótabjórar verið gerðir með Malbygg, Kalda, Smiðjunni, Brothers Brewery og Gæðingi síðustu ár. Í ár er komið að hinu umtalaða brugghúsi Steðja sem nýverið lagði upp laupana.

„Nýja árið byrjar í Borgarfirði, í samstarfi við fráfarandi brugghús Steðja sem kveður okkur með ýlfrandi ferskum Double IPA úr hveiti úr sveitinni. Menn eru sko ekkert að leika sér á Bjössaróló þegar þessum er skotið á loft. Takk og bless!“ segir í kynningu á bjórnum sem fengið hefur nafnið Steðjakveðja nr. C33 og mun vera kominn í valdar Vínbúðir.

Miðinn á dós Steðjakveðju er hannaður af Páli Ivan frá …
Miðinn á dós Steðjakveðju er hannaður af Páli Ivan frá Eiðum og myndirnar vísa meðal annars í Bjössaróló í Borgarnesi og þekkt merki Steðja.

Dagbjartur Arilíusson, eigandi Steðja, var sáttur við útkomuna þegar hann ræddi við mbl.is. Hann seldi fyrr á árinu bruggtæki Steðja til Hólmavíkur þar sem brugghúsið Galdur er að hefja rekstur. Með í kaupunum fór þýski bruggarinn Philipp Ewers sem starfað hefur hjá Steðja frá upphafi. 

Dagbjartur Arilíusson við bjórbíl Steðja sem færði landsmönnum vörur brugghússins.
Dagbjartur Arilíusson við bjórbíl Steðja sem færði landsmönnum vörur brugghússins. Ljósmynd/Aðsend

Steðji var rekinn á samnefndri jörð í Borgarfirði og átti brugghúsið stóran þátt í innrás handverksbjóra hér á landi. Hjá Steðja var opnað fyrsta bruggstofan, eða „taproom-ið“, á landinu, þar var bruggaður fyrsti hamp-bjór landsins og tilraunir Dagbjarts til að selja bjór sinn á netinu fóru ekki fram hjá fólki. Hann keyrði sendibíl nokkrum sinnum kringum landið til að koma bjórnum beint í hendur viðskiptavina og var í kjölfarið tekinn á teppið af yfirvöldum líkt og aðrir brautryðjendur á sviði netsölu með áfengi. Þá vöktu tilraunir Steðja með þorrabjórinn Hval mikla athygli um árið, bæði hér á landi og út fyrir landsteinana. Dagbjartur kveðst stoltur af starfinu með Steðja en allt í allt voru bruggaðar hátt í hundrað bjórtegundir í brugghúsinu. Geri aðrir betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka