„Hér kemur einfaldur og góður fiskréttur sem tekur aðeins um fimmtán mínútur að útbúa. Það þarf nefnilega alls ekki alltaf að vera flókið. Hér má einnig stytta sér leið með því að kaupa tilbúið hrásalat og tilbúna brúna sósu eða pakkasósu! Það tekur hins vegar enga stund að útbúa þessa brúnu sósu og muna bara að krydda og steikja forsoðnu kartöflunar nógu lengi svo þær fái stökka og bragðmikla húð," segir Berglind Hreiðars á Gotteri.is um þennan rétt sm ætti að hitta í mark á hverju heimili.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Fiskibuff með hrásalati
Fyrir um 4-5 manns
Fiskibuff
- 2 pk Gríms fiskibuff (12 stk)
- 80 g smjör
Aðferð:
- Steikið fiskibuffin upp úr smjöri í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til þau brúnast aðeins og verða stökk að utan.
- Berið fram með smjörsteiktum kartöflum, sósu og hrásalati.
Hrásalat uppskrift
- 130 g rauðkál ( ¼ haus)
- 130 g hvítkál ( ¼ haus)
- 130 g gulrætur (2-3 stykki)
- 100 g majónes
- 50 sýrður rjómi
- 1 tsk. hvítvínsedik
- 1 tsk. dijon sinnep
- 2 tsk. sykur
- Salt og pipar
Aðferð:
- Skerið rauðkál og hvítkál í þunna strimla og rífið gulrætur með grófu rifjárni.
- Setjið grænmetið í skál og pískið önnur hráefni saman í annarri skál.
- Hellið næst majónesblöndunni yfir grænmetið og blandið saman, kælið fram að notkun.
Smjörsteiktar kartöflur
- 1 kg forsoðnar kartöflur
- 100 g smjör
- Salt, pipar, hvítlauksduft, rósmarín
Aðferð:
- Bræðið smjörið og látið vatnið renna af kartöflunum á meðan.
- Setjið kartöflurnar næst á pönnuna og steikið við meðalháan hita í að minnsta kosti 10 mínútur og kryddið eftir smekk.
Brún sósa uppskrift
- 200 ml vatn
- 200 ml rjómi
- 2 msk. fljótandi kraftur (ég notaði nauta)
- Maizena sósujafnari – um 3 msk. (20 g)
- 1 msk. púðursykur
- Salt og pipar
- Sósulitur
Aðferð:
- Setjið vatn, rjóma og kraft í pott og náið upp suðunni.
- Lækkið þá hitann og þykkið með sósujafnara.
- Bætið sykri saman við og kryddið eftir smekk.