Svaðalegustu kjúklingavængir síðari ára

Vignir Þór Birgisson, vörustjóri matvöru í Hagkaup, býður árlega upp á stórglæsilegt Super Bowl partý og svignar hlaðborðið af girnilegum veitingum sem Vignir töfrar fram. Þetta er árlegur viðburður sem er sífellt að stækka og það skiptir alls ekki máli hvort gestirnir hafi áhuga á Amerískum fótbolta heldur er þetta miklu meira spurning um að hittast og borða á sig gat, það er aðal leikurinn. Þema í partýinu hjá Vigni er einfalt og gott: Nógu Amerískt og djúpsteikt!

„Ég var lengi að finna aðferð til þess að útbúa stökka kjúklingavængi án þess að djúpsteikja þá og loksins fæddist þessi uppskrift, eftir að ég fór að prófa mig áfram með lyftiduft í þennan rétt og nú verður ekki aftur snúið. Einnig er frábært að kaupa vængi sem búið er að skera til helminga, það einfaldar eldamennskuna.“

Stökkir og bragðmiklir kjúklingavængir
  • 2 kg kjúklingavængir, um það bil 2 pakkar
  • 2 msk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. pipar
  • ½ malaður chili (má sleppa)

Góðar sósur með

  • Franks-buffalósósa
  • Baby rays BBQ-sósa

Aðferð:

1. Þerrið kjúklinginn með eldhúspappír og geymið í kæli í 2-3 klukkustundir til þess að þurrka vængina enn betur.

2. Blandið þurrefnum saman í skál, bætið síðan kjúklingavængjum út í og blandið öllu vel saman. Það er mikilvægt að vængirnir séu þurrir á þessum tímapunkti svo þeir fái létta húðun af þurrefnablöndunni.

3. Setjið vængina á grind. Það er í lagi að þeir snertist aðeins en það er mikilvægt að þeir liggi ekki á bökunarplötunni svo fita og annar vökvi komist frá vængjunum.

4. Eldið í ofni við 120°C í 30 mínútur. Þegar sá eldunartími er liðinn er hitinn hækkaður í 200°C og vængirnir eldaðir í 35-40 mínútur til viðbótar eða þar til þeir eru stökkir og léttbrúnleitir.

5. Veltið gjarnan vængjunum upp úr sósu og berið strax fram.

Tillögur að sósum með vængjunum:

„Eftir eldun er hægt að velja um margar tegundir af sósum, hvort sem það er heimatilbúin hnetusósa, tilbúin teriyaki eða tilbúin BBQ. Ég býð upp á þrjár tegundir, sæta BBQ, sterka BBQ og svo buffalósósu. Það er langbest að skipta vængjunum í þrjár skálar, hita þær sósur sem fara á vængina, hvort sem það er í potti eða í örbylgjuofni, og síðan er sósum hellt yfir og vængjum velt upp úr sósunum. Hver og einn getur þá fengið sér sína uppáhaldssósu eða smakkað allar tegundir, það er líka sterkur leikur.“

Köld gráðaostasósa

  • 180 g sýrður rjómi 18%
  • 250 ml majónes
  • 125 g Saint Agur-gráðaostur

Aðferð:

1. Hrærið öllum hráefnum saman með gaffli og stappið osti saman við.

2. Hér er það smekksatriði hvort þið viljið stóra eða litla bita af ostinum.

3. Best er að geyma sósuna í kæli í 2-3 klukkustundir áður en hún er borin fram.

Vignir Þór Birgisson, vörustjóri matvöru í Hagkaup
Vignir Þór Birgisson, vörustjóri matvöru í Hagkaup
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert