Um mánaðarmótin taka nýir rekstaraðilar við veitingastað Bjórbaðanna á Dalvík. Þetta kemur fram á Fcebook-síðu Bjórbaðanna.
„Við höfum aldrei verið mikið veitingafólk, við fjölskyldan,“ segir Sigurður Bragi Ólafsson bruggmeistari í samtali við mbl.is. „Við vildum í rauninni fá einhvern reyndan veitingamann.“
„Núna langar okkur að geta fókuserað enn þá meira á bjórböðin og erum með einhverjar framtíðaráætlanir. Vonandi í framtíðinni einhverjar stækkanir á bjórböðunum. Við viljum bara sinna því sem er okkar sérstaða og það er bjórinn og bjórböðin. Svo opnuðum við auðvitað líka hótel þarna í fyrra – Hótel Kaldi,“ segir Sigurður.
Það eru þeir Vikar Mar Valsson og Nik Peros sem taka við rekstrinum, en þeir reka einnig veitingarstaðinn Eyri á Hjalteyri.
„Ég er búinn a setja mér draum um að vinna meira með bjórtengda matargerð,“ segir Vikar Mar í samtali við mbl.is. Bætir hann við að starfsemi veitingastaðarins muni byggja á þeim grunni sem fyrri rekendur hafa lagt.
Að sögn Vikars verður flestu haldið óbreyttu fyrstu mánuðina. „Þetta verður líklegast í mjög svipuðu sniði fyrstu mánuðina,“ segir hann.