Sigurður Borgar Ólafsson og Andrea Ylfa Guðrúnardóttir eru framreiðslumeistarar að mennt en þau segja þörf á faglegri þjónustu í veitingageiranum á Íslandi sívaxandi.
Sigurður er formaður Klúbbs framreiðslumeistara, sem hefur nýlega verið endurvakinn, en Andrea, sem fékk titilinn framreiðslumaður ársins 2023, er sjálf á leið til Noregs í sumar þar sem hún mun keppa í Nordic Waiter keppninni, fyrir útskrifaða þjóna, í bænum Hell í júní. Hún stefnir að eigin sögn á að koma með gullið heim.
Þau mættu í Ísland vaknar í gær og ræddu verndað starfsheiti framleiðslumannsins og mikilvægi starfsins, um komandi keppni og framreiðsluklúbbinn við þau Kristínu Sif og Þór Bæring.
„Það er svo ótrúlega mikið af fólki sem er búið að næla sér í þessi réttindi, hvort sem það er að vera fagmenntaður þjónn eða framreiðslumaður eða meistari. En það er bara svo ótrúlega mikil aukning og ótrúlega mikið af stöðum að opnast. Ísland er bara að stækka,“ sagði Sigurður og benti á að Íslendingar væru nú orðnir tæplega 400 þúsund.
„Það er nýr veitingastaður bara að opna í hverri einustu viku. Það þarf alltaf fagfólk til að stýra þessu. Eða til að vera á gólfinu. Til að bjóða upp á þessa faglegu og góðu þjónustu. Það er fátt skemmtilegra en að fá góða upplifun,“ sagði hann en hann telur að þjónusta á veitingastöðum gegna mikilvægu hlutverki fyrir ferðamenn og hafa áhrif á upplifun þeirra af Íslandi.
„Við erum að „representera“ Ísland. Allir þurfa að fá sér að borða og í flestum tilfellum þegar maður ferðast um heiminn nennir maður ekki að vera uppi á hótelherbergi að elda sér núðlur. Þá fer maður út að borða og gerir vel við sig. Þá skiptir svo miklu máli að fólk fái rétta upplifun af Íslandi – og Íslendingar eru ógeðslega „næs“ fólk. Fólk fer út ótrúlega ánægt og talar um Ísland og þá er þetta bara auglýsing fyrir Ísland,“ sagði hann.
Sjáðu viðtalið við Andreu og Sigurð í heild sinni hér fyrir neðan.