Arnar Gauti endurlífgar Punk

Arnar Gauti Sverrisson vinnur nú að því að gera veitingastaðinn …
Arnar Gauti Sverrisson vinnur nú að því að gera veitingastaðinn Punk skemmtilegri. Ljósmynd/Silla Páls

Arnar Gauti Sverrisson er löngu orðinn þekktur í íslensku samfélagi. Hann er einn af þeim fyrstu sem fékk viðurnefnið „tískulöggan“ og svo stýrði hann þættinum Innlit/útlit um tíma. Síðustu ár hefur hann unnið við að endurhanna heimili og veitingastaði. Nýjasta verkefni hans er að endurlífga veitingastaðinn Punk við Hverfisgötu. 

„Tveir góðir vinir mínir eignuðust Punk á Hverfisgötu frekar óvænt nýlega og nálguðust mig með það í huga að hjálpa þeim að þróa verkefnið og staðinn áfram. Fyrri eigendur höfðu misst staðinn í þrot en ástæða þess var tvíþætt,“ segir Arnar Gauti og nefnir að miklar framkvæmdir við Hverfisgötu hafi strax haft áhrif á reksturinn og svo hafi kórónuveirufaraldurinn komið í beinu framhaldi. Ásgeir Kolbeinsson fjölmiðlamaður opnaði Punk 2019 og réð kokkinn Bjart Elí Friðþjófsson til starfa til að stjórna eldhúsinu. Hann hafði áður unnið á Grillmarkaðnum og hlotið mikið lof fyrir störf sín. Ekki síst vegna þess að hann starfaði um tíma á Kadeau í Danmörku. 

Bjartur Elí Friðþjófsson er yfirkokkur á Punk.
Bjartur Elí Friðþjófsson er yfirkokkur á Punk.

„Staðurinn er ákaflega fallegur og vel hannaður. Bjartur Elí yfirkokkur hefur búið til geggjaðan matseðil og ánægja viðskiptavina hefur verið geysilega mikið. Það var því sorglegt að hann fór í hendur skiptastjóra en þessir vinir mínir keyptu þrotabúið og tókst að opna aftur eftir að hann hafði verið lokaður í tvær vikur. Það tókst að ráða allt starfsfólkið aftur og nú er verið að gera vinsælan veitingastað ennþá betri, þróa matseðil, drykki, stemningu og hönnun áfram.  Staðurinn fylltist aftur strax eftir að hann opnaði sem við erum ákaflega þakklát fyrir en það kom okkur ekki á óvart því hann er hreint út sagt frábær,“ segir Arnar Gauti og bætir við: 

„Ég fer fyrir nýjum eigendahóp og mínar hugmyndir um staðinn fara afar vel saman við hugmyndir þeirra svo þetta er mjög skemmtilegt verkefni,“ segir hann en eigendur staðarins eru Guðmundur Arnar Guðmundsson og Guðbergur Erlendsson. 

Arnar Gauti segir að það að fá að koma að þessu verkefni sé gaman. 

„Mig hefur alltaf dreymt um að geta þróað og mótað veitingastað. Þrátt fyrir að hafa hannað og komið að nokkrum öðrum veitingastöðum þá er ég meira tengdur Punk og eigendum staðarins og er því í essinu mínu þessa dagana,“ segir hann.

Hressandi kokteilar hafa fallið vel í kramið hjá gestunum.
Hressandi kokteilar hafa fallið vel í kramið hjá gestunum.

Hvað um matseðilinn?

„Matseðillinn er í dag svipaður og hann var en við erum að þróa hann þessa dagana og nýir réttir munu reglulega líta dagsins ljós á næstu vikum. Þessa dagana erum við að þróa besta Pornstar Martini Íslands en það er að verða langvinsælasti kokteill Íslendinga. Hann er að taka við af Expresso Martini en Punk hefur alltaf lagt mikið kapp á að vera með frábæra kokteila. Í apríl höfum við svo verið með tveir fyrir einn af öllu kampavíni, líka Moet og Bollinger, sem viðskiptavinir hafa elskað. Það er eitthvað svo ótrúlega gaman að geta búið til upplifun sem dregur viðskiptavini alltaf aftur og aftur til okkar. Fyrir mér er veitingahús ekkert nema leikhús með upplifun fyrir gestina í fyrirrúmi með faglegri en léttri þjónustu og svo auðvita geggjuðum mat.“

Arnar Gauti segir að Íslendingar séu undir erlendum áhrifum þegar kemur að veitingahúsaheimsóknum.   

„Eigendurnir hafa lengi búið erlendis og eru miklir matgæðingar en í gegnum árin hef ég jafnframt ferðast og upplifaði marga af bestu veitingastöðum heims,“ segir Arnar Gauti sem er á leiðinni til Lundúna í nokkra daga til þess að sækja sér innblástur. 

„Punk mun því þróast í átt að því sem við sjáum í löndunum í kringum okkur þar sem góður matur, góðir kokteilar og partístemning verður allsráðandi. Partíið hjá gestum verður með vinahópnum við borðið þar sem hægt er að sitja, snæða og skemmta sér inn í nóttina. Íslendingar eru að fara mun meira út að borða en áður og veitingastaðaflóran að taka meiri tíma af skemmtanalífinu og gestir að sitja lengur við inn í kvöldið og nóttina,“ segir Arnar Gauti. 

Það að endurlífga Punk er þó ekki það eina sem Arnar Gauti er að gera þessa dagana. 

„Verkefnin mín eru svo fjölbreytt. Það sem ég tek mest með mér úr þeim, fyrir utan að skapa upplifun fyrir viðskiptavini mína, er allt þetta ótrúlega áhugaverð fólk sem ég fæ að kynnast. Það er í raun það sem drífur mig mest áfram í minni vinnu. Það eru svo útrúlega spennandi verkefni í gangi núna og eins og til dæmis mikið af hönnunar heilsárshúsum á stórfengilegu landi ekki svo langt frá borginni. Mitt stærsta verkefni persónulega er upplifun fyrir yndisleg hjón sem eru með sælureit og þrjú hús á honum og þar erum við að skapa fallegt sveitasetur fyrir fjölskylduna þeirra og vini. Punk er verkefni sem gefur mér ánægu að geta þróað áfram með eigendum og verður svona on going verkefni alltaf.“

Hvaða vonir og væntingar ertu með fyrir komandi mánuði? 

„Þær eru alltaf þær sömu. Það er að fara inn í hvern dag með von um að börnin mín dafni vel og hafi gaman. Ég lifi í þakklæti fyrir fjölskylduna mína og væntingar eru litlar þar sem staðan er í raun sú að mig langar í allt sem ég á og þakklátur fyrir allt sem ég er að gera og fókið í kringum mig,“ segir Arnar Gauti. 

Arnar Gauti er þakklátur fyrir fjölskylduna sína. Hér er hann …
Arnar Gauti er þakklátur fyrir fjölskylduna sína. Hér er hann ásamt eiginkonu sinni og börnunum þeirra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka