Vorið er komið og brátt fer sá tími að ganga í garð þar sem hægt er að slá upp veislu í garðinum – nú eða bara inni í stofu ef það er mikið rok og rigning.
Aðalmálið er að sólin skíni innra með þér og þú bjóðir skemmtilegasta fólki sem þú þekkir heim til þín. Þegar halda skal gott sumarteiti þá þarf borðbúnaður og skreytingar að vera í björtum litum og úr efnivið sem þolir það að dansað sé uppi á borðum.
Á dögunum kom sænska móðurskiptið IKEA með nýja línu sem kallast ÖMSESIDIG. Línan er unnin í samvinnu við hönnuði frá rómönsku Ameríku. Í línunni er að finna eldhúsvörur, vefnaðarvörur og skreytingar sem keyra upp gleðina með glaðlegri litapallettu og munstrum.
Hönnuðurinn Catalina Zarhi, sem er frá Chile, hefur einstakt lag á að sameina hið suðræna og hið norræna með næmni og fágun. Það eru því margir eigulegir hlutir í línunni sem hressa upp á dauflega tilveru.
Áður en þú byrjar að skipuleggja sumarteitið væri ráð að stilla á þennan spilunarlista á YouTube til þess að koma þér í rétta stemningu. Listann má svo endilega spila þegar gestirnir koma í hús.
Það þýðir þó lítið að bjóða í gott sumarpartí nema veitingarnar séu ljúffengar. Ef þú ert með suðrænt þema þá þurfa veitingarnar að vera í stíl við þemað. Ef þig langar að grilla fyrir gestina þá gæti grillspjót með reyktri chimichurri sósu verið góð hugmynd.
Það er fátt Mexíkóskara en tortillakökur. Hér er ein skotheld uppskrift sem klikkar aldrei. Hvort sem það er venjulegur þriðjudagur eða laugardagskvöld.
Ef þú ert að fá salatelskandi gesti í sumarteitið þitt þá hefur þetta salat alltaf slegið í gegn ef það er borið á borð.
Ef þú vilt auka gleðina til muna í boðinu þá gæti þessi útgáfa af Moscow Mule keyrt upp stemninguna!
Ef gestirnir drekka ekki þá má alltaf blanda saman trönuberjasafa og Collabi og fylla það upp með klaka.