Á dögunum hélt fagukerinn og matarbloggarinn Berglind Hreiðars á Gotterí og gersemar upp á 6 ára afmæli yngstu dóttur sinnar, Huldu Sifjar Hermannsdóttur, þar sem bleiki liturinn var allsráðandi. Dóttirin óskaði eftir bleikri afmælisveislu með Barbie þema og varð að ósk. Veislan var íðilfögur og Berglind hugsaði hverju hverju smáatriði enda kunna fáir jafnvel og Berglind halda veislur þar sem þemað fær að skína alla leið. Hér er að finna margar skemmtilegar hugmyndir sem hægt er að leika eftir og gera að sínu.
„Ég veit fátt skemmtilegra en að halda veislur. Þetta er hreinlega eitt af mínum áhugamálum og ég elska að plana eitthvað gómsætt að borða í bland við fallegar skreytingar þegar veislu skal halda,“ segir Berglind og er alsæl með hversu vel tókst til.
„Þegar Hulda Sif óskaði eftir bleikri Barbie afmælisveislu ákvað ég að grípa gæsina og fara alla leið með bleika litinn því hver veit nema þetta verði síðasta bleika veislan í bili, þið vitið nefnilega að allt í einu verður bleikt ekki lengur aðalliturinn þegar maður eldist,“ segir Berglind og hlær.
Valdi að leyfa bleika litnum að njóta sín
Berglind segist ekkert vera sérstaklega hrifin af diskum, glösum og þess háttar með Barbie fígúrunum áprentuðum svo hún fór smá í kringum þetta með því að notast við allt í bleikum lit, baka Barbie köku og panta Barbie kökuskilti, bæði á stórt og nokkur lítil sem hún stakk í nammikrúsir, bollakökur og fleira. Útkoman varð mjög sæt eins myndirnar sýna og daman alsæl með þetta allt saman.
Aðspurð sagði Berglind að fjölskyldan hefði skreytt borðstofuna alla í hvítu, fölbleiku og smá gylltu og hún hafi reynt að gera kökur og annað góðgæti í stíl við þessa liti. „Allt partýdótið og blöðrurnar fengum við í Partýbúðinni og leigðum líka vél til að blása í blöðrur og settum blöðrubogann upp tveimur dögum fyrir afmæli.“
Barbie kakan sjálf er Betty en Berglind bakar alltaf eitt mix í Barbie-forminu sjálfu og síðan einn auka hringlaga botn sem er aðeins stærri en neðsti parturinn af Barbie-forminu. Síðan sker hún utan af og síkka þannig kjólinn, set svo gott lag af súkkulaði smjörkremi á milli og skreyti síðan að utan. Hérna smurði Berglind hvítu kremi með smá bleiku í marmaraáferð framan á kjólinn og sprautaði síðan bleiku smjörkremi með litlum stjörnustút á efri hlutann og notaði laufastút til að gera blúndur á allt pilsið á kjólnum. Skreytti síðan með sykurperlum og fjöðrum sem hún keypti í föndurdeildinni í A4 Kringlunni. Hulda valdi síðan sjálf eina af dúkkunum sínum og stóra systir fléttaði hana upp á nýtt.
Bollakökur með súkkulaði smjörkremi og Cheerioskökur eru alltaf vinsælar. Barbie kökuskiltin pantaði Berglind hjá Hlutprent eins og svo oft áður.
Þessum dásamlegu ísformum dýfði Berglind í súkkulaðihjúp og skreytti með kökuskrauti, leyfði því síðan að storkna og fyllti samdægurs með candyfloss.
Hrísköku íspinna hefur Berglind gert áður en ekki í þessum lit, þetta er í raun alveg sama aðferð og áður en Berglind skipti dökku súkkulaði út fyrir hvítan súkkulaðihjúp.
Sykurpúðar sem búið er að dýfa í hjúpsúkkulaði eru einföld og skemmtileg lausn á veisluborðið, bæði ljúffengir og fallegir.
Berglind sagði að þau hefðu ekki tímt ekki að stinga afmæliskertunum í Barbie kökuna svo sex bollakökur fengu það hlutverk að vera kertahaldarar. Þetta er ótrúlega skemmtileg lausn þegar fallegar skreyttar kökur eru annars vegar og erfitt er að koma kertum fyrir.
Þegar koma að því að velja borðbúnað raðaði Berglind saman hinu og þessu, allt úr sitthvorri áttinni en í sömu litapallíettu. Fallegu ljósbleiku og hvítu kökudiskarnir þær fengu pössuðu alveg upp á 10 í þemað.
Sexuna keypti Berglind í Partýbúðinni og fyllti hana af litlum blöðrum í stíl við stóra bogann. Bæði blöðruboginn og sexan fengu síðan framhaldslíf hjá heppnum fylgjendum Gotterí og nutu sín í næstu veislu.