Að skríða heim klukkan 18.30 er brot á mannréttindum

Kristján Berg rekur verslunina Fiskikónginn.
Kristján Berg rekur verslunina Fiskikónginn. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fiskikóngurinn, Kristján Berg, sem rekur samnefnda fiskverslun, er óhræddur við að fara sínar eigin leiðir þegar kemur að viðskiptum. Nú hefur hann ákveðið að setja fjölskylduna í forgang og ætlar framvegis að loka verslun sinni við Sogaveg klukkan 17 á föstudögum.

Hann segir að það komi alveg til greina að breyta lokunartímanum í 17 alla virka daga en hann sé ekki enn þá búinn að taka ákvörðun um það. Hann segir að það sé mannréttindabrot að skríða heim klukkan 18.30 á föstudögum.

„Fyrirtæki landsins þurfa að vakna. Það þarf að hlúa betur að starfsfólki. Að skríða heim til sín klukkan 18:30 alla daga er bara brot á mannréttindum. Ekkert líf, og tala ég fyrir mína parta og reynslu,“ segir Kristján á Facebook-síðu Fiskikóngsins. Hann segir að verslunarmenn þurfi að eiga líf eins og aðrar stéttir í landinu. Hann vill líka loka verslunum á sunnudögum og segir að það sé alger vitleysa að hafa verslanir opnar allan sólarhringinn. Hann lofar að skemmri opnunartími á föstudögum muni ekki koma niður á þjónustu verslunarinnar. 

Nú er bara spurning hvort hann geti fengið fólkið í landinu til að borða fisk á föstudögum - ekki pítsur eins og tíðkast víða á íslenskum heimilum, og hvort styttri opnunartími styðji við hugmyndina um föstudagsfiskinn! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert