Syndsamlega góðir grillaðir „sykurlausir“ nammibananar

Grillaðir bananar fylltir með sykurlausu súkkulaði og sykurpúðum, gætu orðið …
Grillaðir bananar fylltir með sykurlausu súkkulaði og sykurpúðum, gætu orðið vinsælasti sumareftirrétturinn í ár. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Nú er grilltíminn kominn og það er svo dásamlegt að bjóða upp á grillaða eftirrétti sem bráðna í munni. Bananar eru syndsamlega góðir grillaðir og þeir sem elska banana eiga eftir að kolfalla fyrir þessari uppskrift. Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar elskar grillaða banana og galdraði fram þennan syndsamlega góða eftirrétt sem gæti hreinlega orðið vinsælasti eftirréttur sumarsins. 

„Við grillum ótrúlega oft banana á sumrin eftir góða máltíð. Það er gaman að fylla þá með alls kyns gúmmelaði og hér erum við með sykurlausa sykurpúða og súkkulaði á milli svo það er sannarlega hægt að gera nammisprengju án þess að hún sé full af sykri,“ segir Berglind.

Berglindi finnst mikilvægt að loka bananana ekki inni í álpappírnum því þá verða þeir svo slepjulegir og allt bráðnar einhvern veginn of mikið. „Það hefur reynst mér best undanfarin ár að gera smá „hreiður“ eða stand fyrir þá úr álpappír, láta þá hvíla þar ofan á og hita við meðalháan/lágan hita þar til allt er bráðið. Þannig helst bananinn sjálfur stífur en gúmmelaðið bráðnar.“

Nammibananar á grillið

  • Bananar (miða við einn á mann)
  • Sykurpúðar frá de Bron (4 stk. í hvern banana)
  • Dökkt súkkulaði frá de Bron (eins mikið og kemst í hvern)
  • Álpappír

Aðferð:

  1. Skerið endana af banönunum og rauf í þá miðja.
  2. Takið smá álpappír og búið til „stand“ með því að krumpa hann aðeins saman svo bananinn geti setið ofan á honum.
  3. Fyllið bananana með sykurpúðum og súkkulaði og grillið við meðalháan hita þar til súkkulaðið bráðnar. Ég skar súkkulaðibitana í tvennt því þá er auðveldara að koma þeim fyrir.
  4. Gott er að bera bananana fram með ís og heitri karamellusósu.

Karamellusósa

  • de Bron karamellur (caribbean mix)
  • 4 msk. rjómi

Aðferð:

1. Bræðið í potti þar til slétt karamellusósa hefur myndast og njótið með ís og grilluðum banana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert