Eva María Hallgrímsdóttir, matgæðingur, ástríðubakari og eigandi Sætra synda, er mikill aðdáandi Eurovision-söngvakeppninnar og heldur í þá hefð að halda Eurovision-partí á úrslitakvöldinu. Eva elskar að töfra fram sælkerakræsingar fyrir fjölskyldu og vini og fagnar hverju tækifæri sem hún fær til þess.
Þegar kemur að því að halda Eurovison-partí leika kræsingarnar stórt hlutverk því matur er mannsins megin eins og máltækið segir. Líklegt er að haldin verði nokkur sælkerapartí meðan á keppninni stendur.
„Við fjölskyldan erum yfirleitt með Eurovision-partí á aðalkvöldinu með vinum okkar og það verður engin breyting á því í ár. Verður teiti heima hjá okkur á laugardag þar sem við fáum vini í heimsókn og húllumhæ,“ segir Eva María.
Hrifin af smáréttum
Aðspurð segir Eva María að hefðin sé að halda teiti en ekki séu fastar hefðir með matinn. „Við erum ekki með neina siði eða hefðir í tengslum við Eurovision en þetta árið ætla ég einmitt að vera með skemmtilega partírétti eins og þessa sem ég ætla að deila með ykkur. Fullkomið að vera með svona tapas-smárétti og þægilegt að njóta þeirra yfir sjónvarpinu. Ég er mjög hrifin að því að vera með alls konar smárétti en þá er eitthvað fyrir alla og veisluborðið verður svo litríkt og fallegt.“
Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast með matarástríðu Evu Maríu á instagramsíðu hennar @evamariasaetar. Að sjálfsögðu bakar Eva María líka fyrir Eurovision og þessa dagana hjá Sætum syndum er hægt að fá sérstakar Eurovison-kökur og veislubakka alla vikuna með íslensku þema.
Stökkir buffalóvængir með gráðaostssósu
- 1 pk. kjúklingavængir
- 5 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. salt
Aðferð:
- Byrjið á að þerra vængina og taka þá í tvennt (skera milli liða).
- Setjið svo í skál og setjið lyftiduft og salt yfir þá og rúllið þeim vel upp úr því.
- Leyfið að standa svo í skálinni á meðan þið undirbúið sósuna.
Hot sósa
- 5 msk. íslenskt smjör
- lítil flaska af Franks RedHot Wings-buffalósósu (155 g)
- 1 msk. púðursykur
- ½ tsk. salt
Aðferð
- Setjið öll hráefnin í sósuna í pott og bræðið saman á meðalhita þar til púðursykurinn hefur leyst upp.
- Þá er sósan klár.
Gráðaostssósa
- 2 msk. gráðaostur
- 2 msk. majónes
- 1 msk. hvítvínsedik
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð
- Stappið gráðostinn niður og blandið öllum hinum hráefnunum saman í skálina og hrærið þar til sósan er slétt og fín.
- Ef hún er of þykk er gott að þynna hana aðeins með mjólk.
- Setjið inn í kæli á meðan þið eldið vængina.
Eldun á vængjum
- Hitið ofninn í 200°C.
- Setjið ofngrind ofan á ofnplötu, penslið grindina sem smá olíu.
- Raðið vængjunum á ofngrindina og bakið í ofninum í um það bil 30 mínútur þangað til þeir eru orðnir gullnir og stökkir. Gott að snúa þeim við nokkrum sinnum meðan á bakstri stendur. Takið vængina svo úr ofninum, hellið volgri hot-sósunni yfir þá og berið fram með gráðaostssósu.
- Líka tilvalið að hafa sellerí með þessu til hliðar.
Stökkir buffalóvængir með gráðaostssósu.
Blinis með chilimæjó og stökkri hráskinku (prosciutto) og blinis með graflaxi
- Fisherman-blini
- graflax
- graflaxsósa
- dill
- chilimæjó
- hráskinka
- klettasalat
Aðferð
- Hitið ofninn í 160°C.
- Byrjið á að setja hráskinkuna á ofnbakka og inn í heitan ofn í 12 mínútur til að ná henni stökkri.
- Fyrir graflaxblinis setjið þið fyrst graflaxsósu á bliniið, svo væna sneið af graflaxi og þá ferskt dill. Fyrir hráskinkublini setjið þið chilimæjó á bliniið, svo ristaða hráskinku og toppið svo með fersku klettasalati.
Hráskinka í partíbúningi
- hráskinka
- kirsuberjatómatar
- mozzarellakúlur
- furuhnetur
- klettasalat
- truffluolía
- sjávarsalt eftir smekk
Aðferð
- Byrjið á að rista furuhneturnar á pönnu á vægum hita.
- Náið ykkur svo í fallegt fat og leggið fyrst niður skinkuna, svo fallega skorna tómata og þá mozzarellaostinn.
- Svo ristaðar furuhnetur og klettasalat.
- Toppið svo með truffluolíu og smá sjávarsalti.
Hráskinka í Blinis með graflaxi partíbúningi.
Pítsuvefjur
- 1 pk. tilbúið pítsudeig að eigin vali
- 1 pk. Philadelphia-rjómaostur
- 1 pk. skinka
- 1 pk. rifinn ostur
- 1 pk. pepperoni
Aðferð
- Byrjið á því að fletja pítsudeigið út og smyrja það með rjómaosti (gott er að hita rjómaostinn í smá stund, 30 sekúndur í örbylgju, svo það sé þægilegra að dreifa úr honum).
- Setjið því næst allt áleggið sem þið ætlið að hafa.
- Rúllið deiginu upp í rúllu. Setjið rúlluna í kæli í 30 til 60 mínútur (má vera lengur), þá er þægilegra að skera hana niður. Hitið ofninn í 180°C á meðan rúllan er í kæli.
- Eftir kælingu skerið þá rúlluna í sneiðar og raðið fallega í eldfast mót. Setjið inn í heitan ofan í 25-30 mínútur eða þar til snúðarnir/vefjurnar eru orðnar stökkar að ofan og smá gullinbrúnar.
Stökkir buffalóvængir með gráðaostssósu.