Einfalt og gómsætt kalt pastasalat með ferskum maís, fusilli pasta, tómötum, kjúklingi og fetaosti er kærkomið í byrjun nýrra viku og á vel við þegar sumarið er að gera vart við sig. Núna er líka sá tími ársins þegar ferskur maís kemur í verslanir og vekur kátínu þeirra sem elska ferskan maís. Hildur Rut Ingimarsdóttir matarbloggari á Trendnet er ein af þeim sem elskar ferskan maís. Hún töfraði þennan rétt fram þegar hún komst í nýjan ferskan maís. „Þá langaði mig að útbúa pastarétt sem inniheldur maís en hann er svo góður með pasta, fetaosti, tómötum og sósu og gerir alveg extra gott bragð,“ segir Hildur Rut.
Pastasalat með ferskum maís
Fyrir 4
- 400 g fusilli frá De Cecco
- 2 ferskir maískólfar
- Salt og pipar eftir smekk
- Cayenne pipar eftir smekk
- 1-2 msk. smjör til steikingar
- 4 dl litlir tómatar
- 4 dl rifinn kjúklingur
- 2 dl fetakubbur (hreinn fetaostur)
- 2 avókadó (má sleppa, bara gott ef borðað er strax)
- Salat eftir smekk
- Toppa með fetaosti og ferskum kóríander eða steinselju
Sósa
2 dl Heinz majónes
Safi úr 1 lime
1-2 msk. Sriracha eða sambal oelek
Salt & pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að sjóða fusillini eftir leiðbeiningum, sigtið og kælið.
- Skerið maískornin af maískólfunum.
- Steikið maísinn uppúr smjöri þar til hann brúnast aðeins og kryddið með salti, pipar og cayenne pipar.
- Smátt skerið tómata og avókadó.
- Stappið fetakubbinn gróflega.
- Hrærið saman í sósuna.
- Blandið saman fusillini, salati, maís, tómötum, kjúklingi, fetaosti, avókadó og sósu í stóra skál.
- Toppið með fetaosti og ferskum kóríander eða steinselju og njótið.